Sérfræðingar Vegagerðarinnar skoða nú hvort takmarka beri fjölda stórra og þungra flutningabíla sem ekið er yfir Ölfusárbrú við Selfoss.
Í dag eru engin takmörk á því hve margir slíkir mega vera á brúnni í einu, en hámarksþungi hvers þeirra má þó ekki fara yfir 44 tonn.
„Að setja einhver takmörk er á umræðustigi og þá horfum við til þess að ekki væru fleiri en tveir stórir bílar á brúnni í einu,“ segir Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, í samtali við Morgunblaðið. „Svo ég tali fyrir sjálfan mig þá finnst mér frekar óþægilegt að aka yfir brúna um leið og þrír til fjórir flutningabílar eru þar. Verði umferðin takmörkuð yrði þá væntanlega sett upp umferðarmerki við hvorn sporð hennar sem gefa þetta til kynna og svo fylgst með því að þessar takmarkanir verði virtar af bílstjórum.“