Samfélagsmiðlar orðnir „eitur“

Við verðum stundum að geta verið án allrar truflunar frá …
Við verðum stundum að geta verið án allrar truflunar frá samfélagsmiðlum, segir doktorsnemi í sálfræði. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum alltaf að skoða glansmynd af öðru fólki á samfélagsmiðlum. Við verjum meiri tíma í að skoða líf annarra en að vera í okkar eigin lífi. Þetta er orðið eitur fyrir okkur,” segir Ingibjörg Eva Þórisdóttir, doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, um samfélagsmiðlanotkun unglinga.

Þetta kom fram í erindi hennar og Ingu Dóru Sigfúsdóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík og Columbia háskóla í New York, á ráðstefnu BUGL um börn, unglinga og samfélagsmiðlanotkun. Erindi þeirra nefnist „Kvíði - svefn og samfélagsmiðlar.“   

Kvíði meðal unglingsstúlkna hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2003, samkvæmt rannsókninni Ungt fólk sem rannsóknamiðstöðin Rannsóknir og greining leggja árlega fyrir börn og unglinga.

Ingibjörg Eva Þórisdóttir, doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.
Ingibjörg Eva Þórisdóttir, doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Ljósmynd/Rannsóknir og greining

Frétt mbl.is: Slökkvið á símum og ekki gefast upp

Tengsl eru á milli mikillar samfélagsmiðlanotkunar og skyndilegrar hræðslu meðal unglinga. En stúlkur verja meiri tíma á dag á samfélagsmiðlum en drengir. Þeir sem eru mikið á samfélagsmiðlum, meira en sex klukkustundir á dag, sofa einnig minna. Þær stúlkur sem sögðust vera taugaóstyrkar fá minni svefni. „Unglingar sofa of lítið. Svefn skiptir gríðarlega miklu máli,“ segir Ingibjörg Eva og bendir á að foreldrar þurfi að vera meðvitaðir um hvort börn noti snjalltæki í rúminu.

Hún segir samspil samfélagsmiðla og líðan barna og unglinga vera flókið fyrirbæri en brýnt sé að reyna að skýra þetta samband frekar. Heilt yfir þarf að hlúa betur að líðan barna og unglinga og til þess þarf að Skilja betur flókið samband þessara þátta.


Miða sig við óraunsæjar glansmyndir á samfélagsmiðlum

Stór þáttur af því að þeir sem eru mikið á samfélagsmiðlum eru kvíðnari og líður verr er sá að notendur eru í stöðugum félagslegum samanburði. „Þeir bera sig saman við óraunsæjar myndir af öðrum sem sýna aldrei alla heildarmyndina af einstaklingnum,“ segir Ingibjörg og bendir á að enginn geti því komið vel út úr þeim samanburði. Hún segir mikilvægt að vera meðvitaður um hversu löngum tíma börn og unglingar verja á samfélagsmiðlum og hvernig þeim líði. 

Spurð um heppilega lausn, bendir hún á að meðal annars megi auka forvarnir um áhrif samfélagsmiðla og foreldra og forráðamenn þurfi að stýra notkuninni meira. Hún tekur fram að í þessu eins og mörgu örðu sé þetta samspil margra þátta og ekki ein töfralausn í boði.

Foreldrar þurfa að setja börnum og unglingum reglur varðandi snjallsíma- …
Foreldrar þurfa að setja börnum og unglingum reglur varðandi snjallsíma- og samfélagsmiðlanotkun. mbl.is/Eggert

Greinarmunur á raunverlegum heimi og netheimi

„Við sem samfélag þurfum líka að ákveða hvernig við viljum nálgast samfélagsmiðla og setja okkur reglur um þá til dæmis þegar við eigum raunverulega samskipti aðra,“ segir Ingibjörg Eva. Hún bendir einnig á að mikilvægt sé að ræða þetta við krakkana sjálfa svo það myndist samstaða. „Við verðum líka að geta verið stundum án allrar truflunar frá samfélagsmiðlum og vera í staðnum hér og nú. Og gera greinarmun á netheimi og raunverulegum heimi,“ segir Ingibjörg Eva og bætir við að við þurfum að læra að lifa með snjalltækninni og samfélagsmiðlum en með þeim felast vissulega margir kostir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert