Bragi stígur til hliðar sem skátahöfðingi

Bragi Björnsson, skátahöfðingi.
Bragi Björnsson, skátahöfðingi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bragi Björnsson hefur ákveðið að stíga til hliðar sem skátahöfðingi Bandalags íslenskra skáta (BÍS) í þeirri von að sátt skapist um forystu skátastarfs í landinu. Bragi tjáði ákvörðun sína á félagsforingjafundi skáta í dag þar sem stjórn BÍS fundaði með félagsforingjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BÍS.

„Ég hef kosið að segja af mér embætti skátahöfðingja og úr stjórn Bandalags Íslenskra skáta þannig að forysta skátahreyfingarinnar geti endurnýjað umboð sitt á komandi skátaþingi á Akureyri þann 10. mars n.k.“ er haft eftir Braga.

Markmið félagsforingjafundarins var að ræða starfslok fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍS en honum var sagt upp vegna trúnaðarbrests gagnvart meirihluta stjórnar. Jafnframt voru rædd meðferð tiltekins eineltismáls og vantraustyfirlýsing sem var borin fram á fundi skáta í Jötunheimum nýverið vegna þessa. Stjórn Bís vill árétta að Bragi Björnsson, skátahöfðingi og Fríður Finna Sigurðardóttir, aðstoðarskátahöfðingi höfðu engin afskipti af vinnslu þess eineltismáls sem Skátaréttur ályktaði um síðasta sumar. Málið var á milli fullorðinna einstaklinga og voru þau vanhæf vegna tengsla. Það mál var aftur tekið upp innan hreyfingarinnar núna í haust og er enn í vinnslu í samræmi við viðbragðsáætlun hreyfingarinnar.  Á fundinum var jafnframt tilkynnt að ákveðið hefði verið að halda aukaskátaþing sem hefur verið boðað þann 4. febrúar.

Skátastarf á Úlfljótsvatni. Mynd úr safni. Óánægja var innan skátahreyfingarinnar …
Skátastarf á Úlfljótsvatni. Mynd úr safni. Óánægja var innan skátahreyfingarinnar vegna uppsagnar framkvæmdastjóra.

„Stjórn Bandalags íslenskra skáta harmar þá stöðu sem upp er komin innan skátahreyfingarinnar og við vonum að það skapist friður í starfi skáta við þessa ákvörðun. Nýr skátahöfðingi verður því kosinn á skátaþingi og mun hann leiða áfram það góða starf sem hreyfingin sinnir út um land allt. Við vonum að nú skapist friður í starfi skáta enda var það markmiðið með fundinum að setja öll mál á borðið og komast að sátt í málinu, ” segir Heiður Dögg Sigmarsdóttir, stjórnarmaður í BÍS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert