Engar formlegar beiðnir eða erindi hafa borist íslenskum stjórnvöldum frá yfirvöldum í Bandaríkjunum eða Rússlandi varðandi mögulegan leiðtogafund Donald Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna, og Vladimir Putin Rússlandsforseta. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.
Frétt mbl.is: Trump vill funda með Putin í Reykjavík
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld segir á forsíðu Sunday Times að Trump vilji halda fund með Putin í Reykjavík og að stjórnvöld í Rússlandi séu áhugasöm um slíkan fund.
Guðlaugur segir að hann hafi fyrst heyrt af málinu núna í kvöld þegar Sunday Times birti fréttina. „Við höfum ekki fengið neitt staðfest eða nein erindi um þetta,“ segir hann og bætir við að Íslendingar hafi þó alltaf verið tilbúnir að hjálpa til þegar leiðtogar heimsins hafi viljað funda.
„Fyrstu viðbrögð eru að líta á þetta jákvæðum augum, en þetta er það eina sem við vitum af málinu núna,“ segir Guðlaugur. „Það er allt of snemmt að leggja meira út af því.“
Hann segir íslensk stjórnvöld muni að sjálfsögðu kanna málið hjá yfirvöldum ríkjanna en að ekkert verði aðhafst fyrr en formleg erindi berist.
Guðlaugur tók við ráðherraembætti fyrr í vikunni og aðspurður hvort hann hafi búist við að svona stórfréttir myndu rata inn á borð til hans svo fljótt segir hann hlægjandi að þetta hafi ekki verið eitthvað sem menn hafi átt von á þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir tæplega viku síðan. Hann tekur þó skýrt fram að ekkert sé enn staðfest í þessum málefnum.
Í frétt Sunday Times er vísað til þess að Trump vilji skapa svipaða umgjörð og í kringum fund Mikhail Gorbatsjov og Ronald Reagan hér á landi árið 1986. Guðlaugur segir það ekki skrítið í ljósi þess hvernig tekist hafi til þá. „Ísland er miðju vega milli þessara tveggja stórvelda og ég held að það sé óhætt að segja að þrátt fyrir skamman undirbúning gekk leiðtogafundurinn 1986 mjög vel. Held að hann hafi verið þáverandi yfirvöldum til sóma og leiddi góða hluti af sér,“ segir Guðlaugur.
Í formlegu svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is um mögulegan fund segir að ekkert erindi hafi borist.
„Íslenskum stjórnvöldum hefur ekki borist erindi af þessu tagi. Ef ráðamenn í Washington DC og Moskvu munu óska þess formlega við íslensk stjórnvöld að þau skipuleggi leiðtogafund í Reykjavík mun ríkisstjórn Íslands líta það jákvæðum augum og leggja þannig sitt af mörkum til að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands, minnug leiðtogafundarins í Höfða árið 1986,“ segir í svarinu.