„Ég fer ekki oft í sund, en ég fer þá alltaf ber að ofan og hef fengið jákvæð viðbrögð við því,“ segir Diljá Sigurðardóttir, félagsfræðinemi við Háskóla Íslands. Henni var vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi í gær fyrir að vera ekki í sundfötum að ofan en Diljá fór berbrjósta í laugina.
Kvenkyns baðvörður hafði afskipti af Diljá og liðsfélögum hennar í Ragnarökum, sem keppa í hjólaskautaati (e. roller derby), þegar þær voru nýkomnar ofan í laugina en baðverðinum hafði borist borist kvörtun frá einhverjum sundgesta.
„Ég sagði bara hvað, ég er í sundfötum,“ segir Diljá um sín fyrstu viðbrögð. „En hún sagði að ég væri ekki í topp. Og að maður þyrfti að vera í topp í þessari sundlaug.“
Diljá er ekki sátt við hugmyndafræðina sem gildir í sundlauginni á Akranesi og segir hún alla liðsfélaga sína hafa verið mjög hissa. „Mannréttindi gilda ekki í sundlauginni á Akranesi,“ segir hún en stelpurnar sem eru með henni í liðinu bentu baðverðinum á að það væri ólöglegt að mismuna körlum og konum með þessum hætti.
Að sögn Diljár spurði baðvörðurinn hvort þær ætluðu „virkilega að taka þessa umræðu núna“ þegar þær bentu á að karlarnir væru án topps í lauginni. „Og sagði að það væri ekki Free The Nipple dagurinn í dag.“
Diljá segir að í þau fáu skipti sem hún fer í sund hafi hún fengið mjög jákvæð viðbrögð við því að fara topplaus ofaní en atvikið á Akranesi í gær sýni að baráttunni er ekki lokið.
„Þetta þýðir að maður verður að halda áfram að troða nýjum normum í hausinn á fólki. Baráttan er enn í gangi og mér finnst það skipta miklu máli að gera þetta. Það er af skyldurækni til mannréttinda sem maður gerir þetta. Maður vill normalísera mannréttindin.“
Forstöðumaður Jaðarsbakkalaugar kaus að tjá sig ekki um málið þegar mbl.is hafði samband við hann fyrr í dag.
Þess má geta að þegar #freethenipple byltingin fór af stað hérlendis var efnt til brjóstapartýs í Laugardalslaug, þar sem konur voru hvattar til að mæta berar að ofan. Samráð var haft við forsvarsmenn laugarinnar, sem gerðu ekki athugasemd við uppátækið.