Sækja hugsanlega bætur vegna skemmda

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Miklar rakaskemmdir eru í húsinu.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Miklar rakaskemmdir eru í húsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Svo virðist sem rakaskemmdirnar á Orkuhúsinu megi rekja til samblöndu hönnunar hússins og uppsetningar á veggjakerfinu sem hylur húsið að utan. Húsið var tekið í notkun árið 2003 og er veggja- og gluggakerfi hússins hengt utan á húsið. 

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að enn sé ekki búið að ákveða hvort Orkuveita Reykjavíkur höfði mál á hendur verktakanum sem byggði húsið á sínum tíma, en segir það sannarlega vera til skoðunar. „Það er partur af þessari lögfræðilegri hlið málsins en það er ekki komin niðurstaða í það,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Meiri skemmdir en talið var

Rakaskemmdirnar komu í ljós fyrst árið 2015 en nýlega kom í ljós að skemmdirnar voru meiri en áður var áætlað. Kostnaður vegna skemmdanna er þegar kominn yfir 200 milljónir króna og er Orkuveitan að undirbúa útboðsgögn vegna viðgerða um þessar mundir. Ólíklegt er að tjónið fáist bætt úr tryggingum að sögn Eiríks.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is

Að sögn Eiríks er verið að rýma vesturenda hússins á meðan gert er við. Orkuveitan á þar að auki í viðræðum við þrjá leigutaka í húsinu, þar af tvö hugbúnaðarfyrirtæki, með það hugsanlega fyrir augum að losa um pláss fyrir starfsemi Orkuveitunnar.

Eiríkur segir skemmdirnar vissulega vera mikil vonbrigði þar sem húsið var byggt eftir aldamót. Áætlað er að framkvæmdum ljúki ekki fyrr en í árs­lok 2018. Hann vildi ekki tjá sig um kostnaðarrammann sem Orkuveitan setur verkefninu, það verði ekki opinberað fyrr en tilboð verða opnuð að tilboðsfresti loknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert