Allt tiltækt lið björgunarsveita, lögreglu og Landhelgisgæslunnar verður kallað út til leitar í birtingu en ekkert nýtt hefur komið fram varðandi hvarf Birnu Brjánsdóttur frá því skópar, sem talið er að geti verið skór hennar, fannst við Hafnarfjarðarhöfn seint í gærkvöldi.
Leitað hefur verið í alla nótt á því svæði sem skóparið fannst en almenningur var beðinn um að hætta leit í nótt og lögreglan girti svæðið af. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar er búið að fínkemba svæðið án árangurs og hefur lögregla opnað svæðið í nágrenni Hafnarfjarðarhafnar á ný, að sögn Ingólfs Haraldssonar, sem er í svæðisstjórn Slysavarnarfélagsins.
Lögregla leitar að Birnu Brjánsdóttur sem er fædd árið 1996. Birna er 170 cm há, um það bil 70 kg og með sítt rauðleitt hár. Birna var klædd í svartar gallabuxur, ljósgráa peysu, svartan flísjakka með hettu og svarta Dr. Marten-skó.
Síðast er vitað um Birnu í miðborg Reykjavíkur um kl. 05:00 aðfaranótt laugardags. Upplýsingar um ferðir Birnu berist til lögreglu í síma 444-1000.