„Einhver sem veit meira og hefur ekki gefið sig fram“

Blaðamannafundur lögreglunnar vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur. Grímur Grímsson og Sigríður …
Blaðamannafundur lögreglunnar vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur. Grímur Grímsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lögreglan gengur út frá því við rannsókn sína að Birna Brjánsdóttir hafi farið með bifreið frá miðborg Reykjavíkur til Hafnarfjarðar aðfaranótt laugardags. Það er því „einhver sem veit meira og hefur ekki gefið sig fram“ að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hann segist taka undir það að líklega hafi eitthvað saknæmt komið fyrir miðað við að Birna hafi að öllum líkindum farið með bifreið til Hafnarfjarðar og enn hafi enginn gefið sig fram sem mögulegur ökumaður. Spurður hvort málið væri skoðað sem sakamál segir hann að skilgreining á slíku sé erfið eins og mál standa. „Vil síður stimpla það sem slíkt, en við beitum öllum ráðum sem okkur er heimilt við rannsókn sakamála við þetta mál,“ segir hann. Þar á hann við t.d. úrskurð héraðsdóms um símagögn, að lögreglan skoði tölvur og bankagögn og ræði við vitni.

Fyrr í dag fékk lögreglan úrskurð hjá héraðsdómi um að bera saman farsímagögn á þeim stöðum sem sími Birnu náði sambandi við farsímasenda. Grímur segir aftur á móti að sú vinna gangi hægt enda sé hún flókin og umfangsmikil. Segir hann að bæði sé um talsverðan fjölda að ræða og þá ferðist símar mismunandi símafélaga á mismunandi hátt milli farsímasenda. Það tefji allan samanburð.

Fyrr í dag haldlagði lögreglan rauða Kia Rio-bifreið í Kópavogi. Grímur segist ekki geta staðfest að bíllinn sé sá sem auglýst hefur verið eftir, en hann sást á Laugavegi á svipuðum tíma og síðast sást til Birnu. Lögreglan vinnur nú úr upplýsingum frá umboðinu, en samtals eru 126 slíkir bílar á skrá hér á landi.

Mbl.is fékk það staðfest fyrr í dag að bíllinn hefði sést á öryggismyndavélum við Hafnarfjarðarhöfn og voru ökumenn og farþegar í bílnum tengdir grænlenska skipinu Polar Nanoq. Skipið hélt úr höfn á laugardaginn.

Grímur vildi ekkert staðfesta um þessa tengingu og ekki heldur hvort danskt herskip væri að veita skipinu eftirför. Þá vildi hann heldur ekki staðfesta hvort unnið væri út frá því að ökumaður bílsins væri farinn úr landi. Aftur á móti væri ekkert útilokað.

Í gær var birt myndband af ferðum Birnu í miðborginni og segir Grímur að einn tilgangur þess hafi verið að hafa uppi á því fólki sem kynni að hafa séð Birnu á leið hennar frá Lækjartorgi og upp að Laugavegi 31. Hann segir að enginn hafi gefið sig fram að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka