Rauð Kia Rio-bifreið er orðin að miðpunkti rannsóknar við leitina að Birnu Brjánsdóttur. Bíll af þeirri gerð og þeim lit sást á Laugavegi, svo mögulega við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og svo við Hafnarfjarðarhöfn. Talið er að bíllinn tengist skipverjum á grænlenskum togara sem lá við festar í höfninni allt þangað til að kvöldi laugardags. Þeir hafi haft bílinn á leigu á þessum tíma. Samkvæmt heimildum mbl.is sést á eftirlitsmyndavélum að bíllinn fer til og frá höfninni nokkrum sinnum yfir daginn.
En hverjar voru ferðir bílsins þennan morgun?
Fljótlega eftir að lögreglan hóf að lýsa eftir og leita Birnu var einnig lýst eftir ökumanni rauðrar Kia Rio-bifreiðar. Ástæðan var sú að bíllinn sást á eftirlitsmyndavélum við Laugaveg 31 í Reykjavík kl. 5.25 að morgni laugardags, á sama tíma og Birna sást á myndum vélarinnar. Til Birnu hefur ekkert spurst síðan.
Í dag sagði Vísir.is svo frá því að rauður bíll, mögulega Kia Rio, hafi sést á upptöku myndavélar við áhaldageymslu Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar kl. 5.53 sama morgun. Í frétt mbl.is fyrr í kvöld kom svo fram að bíllinn hefði sést á eftirlitsmyndavél Hafnarfjarðarhafnar. Það var nokkrum mínútum síðar eða milli kl. 6 og 6.30.
Merki frá farsíma Birnu fundust í fjarskiptamöstrum við Laugaveg, Lindargötu og Sæbraut. Þá er talið að hún hafi verið komin upp í bíl. Síðasta merkið frá símanum var svo í turni við Flatahraun í Hafnarfirði, í um 3 kílómetra fjarlægð frá áhaldahúsi golfklúbbsins. Þetta síðasta merki símans, áður en slökkt var á honum, barst rétt fyrir kl. 6.
Sé um sama bílinn að ræða í öllum þessum þremur tilvikum hefur það tekið hann í mesta lagi klukkustund að fara á milli miðborgarinnar og Hafnarfjarðarhafnar, og í minnsta lagi rúman hálftíma.
Á laugardeginum, áður en skipið leggur úr höfn, er bílnum ekið nokkrum sinnum til og frá hafnarsvæðinu, samkvæmt heimildum mbl.is. Honum var svo skilað á bílaleiguna síðdegis. Skipið lagði svo úr höfn, eins og fyrr segir, eftir kl. 21 um kvöldið.
Lögreglan lagði í dag hald á bíl af þessari gerð og með þessum lit. Sá fannst í Kópavogi. Þrátt fyrir að hafa ítrekað lýst eftir ökumanni hennar gaf enginn sig fram.
Skór Birnu fundust við birgðastöð Atlantsolíu í gærkvöldi. Það er ekki langt frá þeim stað þar sem skipið lá við festar.
Sjónir beinast nú að grænlenska togaranum Polar Nanoq sem samkvæmt staðsetningarkortum er nú staddur úti fyrir ströndum Grænlands. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn verst alla frétta af málinu og segir rannsókn þess á viðkvæmu stigi.