Gekk í hálfhring í miðbænum

Birna Brjánsdóttir er tvítug. Hennar hefur verið saknað frá því …
Birna Brjánsdóttir er tvítug. Hennar hefur verið saknað frá því aðfaranótt laugardags.

Búið er að kortleggja betur för Birnu Brjánsdóttur um miðborg Reykjavíkur. Nú er ljóst að hún fór út af skemmtistaðnum Húrra í Tryggvagötu, gekk svo Austurstræti, Bankastræti og þaðan upp Skólavörðustíg. Svo gekk hún um Bergstaðastræti, líklega um Smiðjustíg, og inn á Laugaveg þar sem hún sést síðast á eftirlitsmyndavél kl. 5.25 við hús númer 31. 

„Þannig að hún gengur um það bil hálfhring [um svæðið], upp eftir og niður eftir aftur,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. 

Fram hefur komið í fréttum að grunur leiki á að skipverjar á grænlenskum togara, Polar Nanoq, tengist bíl sem mögulega sé sá hinn sami og sást við Laugaveg á sama tíma og Birna sást síðast. Grímur vill ekkert staðfesta um þetta og því ekki hvað taki við í aðgerðum lögreglu er skipið, sem snúið var við á leið sinni til Grænlands í gær, kemur til íslenskrar hafnar í kvöld.

„Það sem ég get sagt er að rannsóknin er í sama farvegi og verið hefur,“ segir Grímur og ítrekar að hann vilji ekki staðfesta fréttir fjölmiðla um að rannsóknin tengist togaranum.

Fjórir lögreglumenn fluttir með þyrlu

Samkvæmt heimildum mbl.is fór þyrla Landhelgisgæslunnar með fjóra rannsóknarlögreglumenn um borð í danska varðskipið Triton í gærkvöldi vegna málsins. Danski herinn hefur einnig staðfest við mbl.is að íslenska lögreglan hafi óskað eftir aðstoð varðskipsins.

Spurður hvort tekist hafi að staðfesta frekar för rauða bílsins, sem talinn er vera af tegundinni Kia Rio, segir Grímur: „Við höfum verið að skoða myndbönd sem okkur hafa áskotnast og orðið ágætlega ágengt án þess að ég geti farið út í það með hvaða hætti.“

Bíllinn enn til rannsóknar

Lögreglan lagði í gær hald á rauðan bíl af tegundinni Kia Rio í Kópavogi. Grímur segir að bíllinn sá sé enn til rannsóknar.

Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við hvarf Birnu og enginn hefur stöðu grunaðs manns, að sögn Gríms.

Grímur segir að enn hafi engir vegfarendur, sem urðu á vegi Birnu og sáust á eftirlitsmyndavélum í miðbænum, gefið sig fram. Hann segir að hins vegar hafi nú tekist að kortleggja betur ferðir hennar um  miðbæinn, allt frá því að hún fór út af skemmtistaðnum Húrra í Tryggvagötu og þar til hún sést síðast á eftirlitsmyndavél við Laugaveg 31, um hálftíma síðar. 

Kortið sýnir ferðir Birnu Brjánsdóttur í miðborginni að morgni laugardags …
Kortið sýnir ferðir Birnu Brjánsdóttur í miðborginni að morgni laugardags miðað við þær upplýsingar sem lögreglan gaf mbl.is í morgun. mbl/map.is

Hann segir að nú liggi endanlega fyrir að leið hennar lá út af Húrra í Tryggvagötu, um Austurstræti og Bankastræti, inn á Laugaveg en svo upp Skólavörðustíg og þaðan niður Bergstaðastræti og aftur inn á Laugaveg. Hún gekk svo áleiðis Laugaveg að húsi nr. 31 þar sem hún sást síðast á eftirlitsmyndavélum. Þessi leið hefur nú, að sögn Gríms, verið staðfest með upptökum úr myndavélum á svæðinu. 

Enn verið að skoða farsímagögnin

Í gær fékk lögreglan heimild héraðsdóms til að afla og greina farsímagögn, gögn sem mögulega er að finna um aðra farsíma en Birnu og för þeirra á milli senda á höfuðborgarsvæðinu. Grímur segir að enn hafi ekkert komið út úr greiningu á gögnunum en áfram verði unnið í að bera þau saman. Hann segir að slíkt geti tekið tíma.

- Þannig að þið hafið engar nýjar haldbærar upplýsingar um hvar Birna er?

„Nei, því miður,“ segir Grímur. „En það er unnið hörðum höndum að því að reyna að finna út úr því.“

Birnu hefur nú verið saknað í meira en 100 klukkustundir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert