Kemur til hafnar í kvöld

Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn
Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn mbl.is/Þorgeir Baldursson

Grænlenski togarinn Polar Nanoq, sem sigldi út frá Hafnarfirði á laugardag, kemur væntanlega ekki til hafnar fyrr en í kvöld en honum var snúið við djúpt vestur af landinu undir kvöld í gær. Slæmt veður er á siglingarleiðinni og spáin ekki góð fyrir daginn.

Björgunarsveitir eru hættar leit að Birnu Brjánsdóttur nema eitthvað nýtt komi fram í málinu. Ekkert hefur spurst til Birnu síðan aðfaranótt laugardags og hafa björgunarsveitarmenn, lögregla og almenningur tekið þátt í leitinni að henni síðan á sunnudag.

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum og fleiri upplýsingar sem aflað hefur verið komu rannsókn málsins á braut grænlenska togarans en enginn hefur verið handtekinn um borð. Danska varðskipið Triton sigldi í gærkvöldi á móts við togarann að beiðni íslensku lögreglunnar.

Íslenskir lögreglumenn um borð í Triton

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is fóru fjór­ir lög­reglu­menn með þyrlu Land­helg­is­gæsl­unn­ar út í danska varðskipið Trit­on í gærkvöldi. Hvorki lögregla né Landhelgisgæslan hafa staðfest þetta.

Triton var á siglingu í átt að Grænlandi, sem áður hafði verið ákveðin, þegar íslenska lögreglan hafði samband síðdegis í gær og óskaði aðstoðar skipsins, að sögn Erik Bøttger, fjölmiðlafulltrúa danska hersins, í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

Mynd af rauðum Kia Rio-fólksbíl sem var á Laugavegi í Reykjavík aðfaranótt laugardags hefur verið ein helsta vísbendingin í leitinni að Birnu Brjánsdóttur. Alls eru 126 slíkir bílar til á landinu, en upplýsinga var aflað um þá og í gær lagði lögregla hald á slíkan bíl í Kópavogi. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki geta staðfest að þetta sé bíllinn sem lýst hefur verið eftir.

Í gær fékkst staðfest að skór sem fundust við Hafnarfjarðarhöfn væru Birnu og að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjörg, var svæðið þar í kring fínkembt af björgunarsveitarfólki án árangurs. Eins var leitað í Urriðaholti vegna upplýsinga sem komu fram um farsíma Birnu og í miðbænum þar sem síðast sást til hennar. 

Björgunarsveitarfólk í viðbragðsstöðu

Björgunarsveitarfólk hefur leitað nákvæmlega í tvígang yfir þessi þrjú svæði án árangurs og hefur verið ákveðið að hætta leit á meðan ekki liggja fyrir frekari upplýsingar sem nýst geta til leitar. Björgunarsveitarfólk er í viðbragðsstöðu en að sögn Þorsteins hefur aðgerðarstjórn björgunarsveita verið í mjög góðu og nánu samstarfi við lögregluna í málinu. 

Vegna orðróms á samfélagsmiðlum um mögulegan líkfund við Hvaleyrarvatn fór lögregla og leitaði af sér allan grun þar í nótt. Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn og yfirmaður rannsóknarinnar, sagði í samtali við mbl.is að nokkr­ir óein­kennisklædd­ir lög­reglu­menn hefðu farið á staðinn í kjöl­far þess að þeir urðu þess áskynja að skrifað var um á sam­fé­lags­miðlum að lík hefði fund­ist við Hval­eyr­ar­vatn. „Okk­ur barst ekki til­kynn­ing með form­leg­um hætti,“ seg­ir Grím­ur.

Grím­ur staðfesti í sam­tali við mbl.is seint í gærkvöldi að enginn hefði verið handtekinn eða yf­ir­heyrður með rétt­ar­stöðu grunaðs manns í tengslum við leitina að Birnu. 

Mikið álag hefur verið á lögreglu vegna leitarinnar og hafa fjölmargar ábendingar borist um hvarf Birnu Brjánsdóttur og þakkar lögreglan fyrir það á Facebook-síðu sinni. „Lögreglan vinnur úr öllum ábendingum sem berast en vegna fjölda þeirra er ekki hægt að svara þeim öllum og biðjum við því fólk að sýna því skilning,“ segir á síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert