Lögregla er nú á leiðinni að Hvaleyrarvatni við Hafnarfjörð vegna ábendingar sem barst um að þar hefði fundist mannslík. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann segir að óstaðfest sé hvort ábendingin sé rétt.
Að sögn Gríms er talsverður hópur fólks samankominn við vatnið, sem er hvorki á vegum lögreglu né björgunarsveita.
Spurður hvort þessi aðgerð tengist leitinni að Birnu Brjánsdóttur segist Grímur ekki geta staðfest það.
Uppfært 1:03
Lögreglumenn, sem fóru að Hvaleyrarvatni við Hafnarfjörð skömmu eftir miðnætti, eftir að ábending barst um líkfund þar hafa ekkert fundið. Svo virðist sem orðrómur á samfélagsmiðlum hafi orðið til þess að þessi ábending kom fram, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Frétt mbl.is - Ekkert fundist við Hvaleyrarvatn