Nýtt tengivirki Veitna og Landsnets á Akranesi var formlega tekið í notkun í dag við athöfn. Framkvæmdum við tengivirkið lauk vorið 2016. Við þetta tilefni ávarpaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gesti og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, fluttu tölu.
Nýja tengivirkið á Akranesi er staðsett við Smiðjuvelli 24 en gamla tengivirkið var á svæði sem nú hefur verið skipulagt sem íbúðarhverfi. Byggingarframkvæmdir voru boðnar út 2014 og var samið við ÍAV um byggingu hússins og hófust framkvæmdir haustið 2014. Uppsetning á rafbúnaði hófst haustið 2015 og húsið var fullklárað vorið 2016.
Byggingin, sem er um 1.150 fermetrar, er 70% í eigu Veitna og 30% í eigu Landsnets. Rafmagn kemur til stöðvarinnar frá Brennimel og frá Andakíl eftir flutningskerfi Landsnets og við hana tengjast 45 dreifistöðvar (spennistöðvar), staðsettar vítt og breitt um bæinn.