Grænlenski togarinn Polar Nanoq er kominn til Hafnarfjarðar eftir um sólarhringssiglingu frá Grænlandi eftir að lögreglan óskaði eftir að skipið kæmi hingað til lands aftur. Um hádegi í dag voru tveir skipverjar um borð handteknir af sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra og seinna í dag var sá þriðji handtekinn. Eru þeir allir grunaðir um að búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu Brjánsdóttur aðfaranótt laugardags.
Settir voru upp gámar til að takmarka sýn að skipinu þegar það kemur og hefur lögreglan lokað hafnarsvæðinu. Fjölmiðlafólki var þó hleypt örlítið nær, en er engu að síður um 300 metra frá hafnarbakkanum.
Uppfært kl. 23:14: Togarinn er nú kominn alveg upp við höfnina og eru lögreglumenn farnir að tínast út úr lögreglubílum sem lagt var við skipið. Tæplega 20 bílar eru á svæðinu, bæði merktir lögreglubílar og ómerktir. Þá er verið að undirbúa landgöngubrúna úr togaranum.
Uppfært kl. 23:23: Landgöngubrúin er komin niður stjórnborðsmegin og eru skipverjar að setja upp handriðið. Sérsveitarmaður er við innganginn, en enginn hefur verið leiddur út enn þá.
Uppfært kl. 23:38: Nokkrir lögreglumenn gengu upp landganginn og inn í skipið. Verið er að setja upp net utan á skipið, en ekki er ljóst hver tilgangur þess er. Mögulega á að reyna að byrgja sýn á þá sem ganga út. Björgunarsveitarfólk er enn við leit á hafnarsvæðinu. Ekki er ljóst hversu lengi leit mun standa yfir.
Uppfært kl. 00:05: Lögreglan fylgdi einum manni frá borði núna rétt yfir miðnætti, en hann virtist vera hulinn þannig að erfitt var að greina hann. Samkvæmt blaðamanni mbl.is á staðnum er mikill viðbúnaður hjá lögreglunni á þessari stundu. Björgunarsveitarfólk er ekki lengur að störfum við höfnina.
Uppfært kl. 00:07: Maður númer tvö hefur nú verið leiddur frá borði. Fjölmargir lögreglumenn fylgdu honum niður landganginn. Þá er fyrsti lögreglubíllinn lagður af stað með einn hinna grunaða.
Uppfært kl. 00:09: Búið er að leiða alla þrjá sem eru grunaðir í málinu frá borði. Þá eru þrír lögreglubílar lagðir af stað með mennina frá höfninni. Nokkrir lögreglumenn fylgja hverjum hinna grunuðu. Mönnunum er haldið alveg í sundur.
Nokkrir lögreglumenn eru enn þá á vettvangi, en fyrr í kvöld var greint frá því að tæknideild lögreglunnar myndi skoða skipið.