Lögreglan hefur handtekið þriðja skipverja Polar Nanoq um borð í skipinu þar sem það er á leið til landsins. Ástæða handtöku hans er sú hin sama og hvað varðar hina tvo, þ.e. að grunur leikur á að hann búi yfir upplýsingum um hvarf Birnu Brjánsdóttur 14. janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Maðurinn verður yfirheyrður við komuna til landsins.
Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem fer fyrir rannsókn málsins, var maðurinn handtekinn eftir frekari rannsókn lögreglunnar á landi, en hann er Grænlendingur eins og hinir tveir sem þegar hafa verið handteknir.
Fyrr í kvöld var tilkynnt um að tveir hefðu verið handteknir í áhöfn skipsins vegna þess að lögreglan taldi þá búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu. Hafði lögreglan sent sérsveit ríkislögreglustjóra um borð í skipið með þyrlu Landhelgisgæslunnar um hádegisbil. Þeir tóku yfir stjórn skipsins sem nú siglir til hafnar í Hafnarfirði.
Að sögn Gríms munu yfirheyrslur hefjast í kvöld og verða einnig teknar vitnaskýrslur af öðrum skipverjum. Aðspurður segir Grímur að yfirheyrslur séu ekki hafnar um borð í skipinu, ekki síst vegna þess að við þær aðstæður geta hinir handteknu ekki haft með sér verjanda. Þeim hefur þó verið kynnt sakarefnið.
En leiddi rannsókn á farsímagögnunum til þessarar handtöku? „Ég get ekki farið út í hvað í rannsókninni varð til þess að við ákváðum að handtaka,“ segir Grímur.
Eru einhverjir aðrir um borð í skipinu en áhöfnin og lögreglumenn? „Nei.“
Þá segir hann töluvert lið lögreglu, þar á meðal tæknideild, hefja leit í skipinu þegar það kemur í land á miðnætti, en sérsveitarmenn séu ekki byrjaðir að leita.
Spurður um rannsókn á bílnum segist Grímur ekki geta farið nánar út í rannsóknina.
En er eitthvað frekar komið í ljós um staðsetningu Birnu? „Nei. Hún er ekki fundin,“ segir Grímur.
Fréttin hefur verið uppfærð.