Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr með mest fylgi stjórnmálaflokka eða 26,1% samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR. Fylgið er þó 3,2% minna nú en í könnun fyrirtækisins í lok desember þegar það mældist 29,3% eða svipað og flokkurinn fékk í þingkosningunum sem fram fóru í lok október.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð bætir hins vegar við sig verulegu fylgi og mælist nú með 24,3%. Fylgi flokksins var 20,7% í lok ársins og 15,9% í kosningunum. VG hefur því bætt við sig 8,4% fylgi frá því í kosningunum miðað við niðurstöður könnunarinnar. Píratar mælast með 14,6% eða nær sama fylgi og í kosningunum.
Framsóknarflokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn með 10,9% fylgi samanborið við 10,2% í síðustu könnun og 11,5% í kosningunum. Viðreisn mælist með 6,9% sem er nær sama fylgi og í í lok desember. Flokkurinn hlaut hins vegar 10,5% fylgi í kosningunum sem þýðir að fylgið hefur minnkað um 3,6% síðan þær fóru fram.
Samfylkingin fer upp fyrir Bjarta framtíð í fylgi og mælist með 6,4%. Það er þó ekki vegna fylgisaukningar frá síðustu könnun en þá mældist flokkurinn með 6,9%. Hins vegar hlaut flokkurinn 5,7% í kosningunum. Björt framtíð er með 6,3% samanborðið við 9,1% í lok desember og 7,2% í kosningunum í október.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, er 39,3%. Athygli vekur að fylgi bæði Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar minnkar umtalsvert á milli kannana á meðan fylgi Viðreisnar stendur í stað. Könnunin var gerð dagana 3.-10. janúar á meðan stjórnarmyndunarviðræður flokkanna stóðu yfir.