Kínverskur ferðamaður var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir manndráp af gáleysi. Staðfesti Hæstiréttur þannig dóm Héraðsdóms Suðurlands frá því í mars á síðasta ári.
Maðurinn ók bíl sem lenti í hörðum árekstri við annan bíl á einbreiðri brú í Öræfum á öðrum degi jóla árið 2015. Ökumaður hins bílsins lést í árekstrinum. Auk þess slösuðust eiginkona hans og tvö börn. Maðurinn játaði sök í málinu.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að ökumaðurinn hafi sýnt af sér mikla óvarkárni og ekið allt of hratt og valdið slysinu sem kostaði ökumann hinnar bifreiðarinnar lífið.
Í dómi Hæstaréttar segir að manninum hafi ekki getað dulist að aksturslag hans myndi óumflýjanlega leiða til hættu á árekstri ef önnur bifreið væri þegar komin inn á brúna úr gagnstæðri átt. Aksturslag hans hafi brotið í bága við lög og leitt til mannsbana.
Slysið átti sér stað um miðjan dag þar sem bílaleigubifreið af tegundinni Toyota RAV4 ók allt of hratt að einbreiðri brú yfir Hólá úr austurátt og rakst þar á hlið bílaleigubifreiðar af tegundinni Kia Ceed sem kom úr suðurátt. Ökumaður Kia-bifreiðarinnar, 44 ára karlmaður, lést þar sem mikil aflögun varð inni í ökumannsrými bifreiðarinnar.
Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða 2,4 milljónir króna í sakarkostnað og var sviptur ökuréttindum í tíu mánuði.