Grænlenska útgerðin Niisa Trawl hefur ákveðið að senda skipverja grænlenska togarans Regina C heim til Grænlands vegna óvildar sem þeir hafa mætt á Íslandi í kjölfar hvarfs Birnu Brjánsdóttur.
Þetta kemur fram í frétt á vef grænlenska útvarpsins, en þar segir að mennirnir hafi orðið fyrir fordómum í verslun á höfuðborgarsvæðinu og á götum úti. Þetta hafi átt sér stað eftir að fjórir úr áhöfn Polar Nanoq voru handteknir í tengslum við hvarf Birnu.
Sjómennirnir, sem tengjast ekki hvarfi Birnu með neinum hætti, höfðu ætlað sér að kaupa sælgæti og blöð í verslun, þegar þeim var neitað um afgreiðslu og vísað út úr versluninni.
Svend Christensen, eigandi útgerðarinnar, segir að Grænlendingunum líði eins og þeir séu ekki velkomnir á Íslandi. Sex manns úr áhöfninni hafi verið fluttir til Grænlands í dag.
„Þeim líður ekki eins og þeir séu velkomnir þegar þeir ganga um götur borgarinnar,“ sagði hann. „Auðvitað á það ekki að bitna á þeim að fólk haldi að allir Grænlendingar séu slæmir.“
Fjölmargir lesendur Grænlenska útvarpsins hafa skilið eftir athugasemdir undir fréttina, og augljóst er að margir þeirra taka tíðindin nærri sér.