Ræddust góða stund við á bryggjunni

Lögregla leiðir skipverjana sem handteknir voru frá borði. Myndbandsupptökur á …
Lögregla leiðir skipverjana sem handteknir voru frá borði. Myndbandsupptökur á svæði Hafnarfjarðarhafnar sýna aðeins tvo menn á tökum tengdum bílnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipverjarnir tveir sem Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í tveggja vikna gæsluvarðhald nú í dag í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur sjást á eftirlitsmyndavélum aka rauðri Kia Rio-bifreið að grænlenska togaranum Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn klukkan 6:10 á laugardagsmorgun.

Er þetta um 20 mínútum eftir að mastur við Flatahraun í Hafnarfirði greindi merki frá farsíma Birnu, sem skömmu síðar var slökkt á handvirkt. Ekkert hefur spurst til Birnu frá því hún sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugaveginum klukkan 5:25 um morguninn.

Stoppaði góða stund við flotkvína

Samkvæmt heimildum mbl.is sýna upptökur mennina stíga báða út úr bílnum og ræðast við á bryggjukantinum góða stund, áður en annar þeirra fer upp í skipið. Hinn stígur aftur upp í bílinn og ekur út bryggjuna þar sem hann stoppar svolitla stund við flotkvína, áður en hann fer út af svæðinu. Þess má geta að kafarar frá embætti ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni voru við köfun á þessu svæði í allan gærdag og fram á kvöld og notuðu þeir m.a. kafbát til að skoða svæðið við flotkvína.

Komið hefur fram á Vísi að maðurinn hafi verið fjarverandi í um þrjú korter áður en hann kom aftur að skipinu eftir þessa ferð.

Bíllinn fór svo einar tvær ferðir til viðbótar út af hafnarsvæðinu um morguninn og hefur Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi og einn af stjórnendum aðgerða staðfest að bíllinn hafi farið nokkrar ferðir út af svæðinu.

Síðasta ferðin út af hafnarsvæðinu var svo farin undir hádegi á laugardeginum. Var bíllinn þá fjarverandi í rúman klukkutíma. Skipið sigldi síðan út úr Hafnarfjarðarhöfn undir kvöld þann dag.

Bara tveir menn sjást á upptökunum

Samkvæmt heimildum mbl.is sjást einungis tveir menn á myndbandsupptökum tengdum bílnum og var aðallega annar þeirra í ferðum inn og út af svæðinu.

Heimildir mbl.is herma sömuleiðis að eftirlitsmyndavélarnar við Hafnarfjarðarhöfn hafi allar verið endurnýjaðar á síðustu tveimur árum og séu mun ljósnæmari en almennt er um slíkar vélar. Þær virki því mjög vel í myrkri og fyrir vikið sé auðvelt að greina bílnúmer, andlitsfall og önnur slík atriði á upptökum úr þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert