Rannsókn í skipinu lokið

Grænlenski togarinn Polar Nanoq en hann kom til hafnar seint …
Grænlenski togarinn Polar Nanoq en hann kom til hafnar seint í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq var að ljúka en yfirheyrslur standa enn yfir þremur skipverjum, sem handteknir voru í tengslum við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns. Ákvörðun um gæsluvarðhald liggur ekki fyrir. Þremenningarnir eru yfirheyrðir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Grímur segir að aðgerðum um borð í skipinu hafi lokið nú á sjötta tímanum og leit lokið þar í bili. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið þar að störfum í alla nótt. Skýrslur voru teknar af vitnum, það er öðrum skipverjum, í nótt og er skýrslutökum lokið.

Hann segir að yfirheyrslum muni ljúka einhvern tíma með morgninum en ekki er hægt að segja nákvæmlega til um það. 

Aðspurður segir Grímur að það sé ekkert sem hann geti sagt á þessum tímapunkti varðandi það sem hefur komið fram við leit og yfirheyrslur en ekki hafa fleiri verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins.

Ákvörðun um hvort óskað verður eftir gæsluvarðhaldi yfir skipverjunum þremur verður tekin þegar líður á morguninn en óska verður eftir því hvað varðar skipverjana tvo, sem fyrst voru handteknir, ekki síðar en um hádegi.

Tæknideild lögreglunnar rannsakaði rauðu Kia-bifreiðina í gær og verður því starfi haldið áfram í dag. 

Fjölmenni var við Hafnarfjarðarhöfn og fjöldi lögreglubíla var á hafnarsvæðinu þegar Polar Nanoq lagðist þar að bryggju á tólfta tímanum í gærkvöldi eftir að íslensk lögregluyfirvöld höfðu óskað þess að skipið kæmi hingað til lands eftir að hafa siglt héðan á laugardagskvöldið.

Tveir skipverjar voru handteknir af sérsveitarmönnum Ríkislögreglustjóra um borð í skipinu um hádegi í gær, grunaðir um að búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu. Síðar um daginn var sá þriðji handtekinn. Mennirnir voru fluttir hver í sínu lagi á lögreglustöðina við Hverfisgötu.

Grímur segir engar grunsemdir vera um að einhver mannanna þriggja væri einhver þeirra manna sem Birna sést ganga framhjá á myndböndum sem lögreglan hefur birt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert