Mennirnir tveir sem eru í haldi lögreglunnar grunaðir um refsiverða háttsemi í tengslum við hvarfið á Birnu Brjánsdóttur eru á þrítugsaldri. Þeir hafa ekki komið við sögu lögreglu hér á landi áður, en verið er að skoða hvort svo getið verið í öðrum löndum.
Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn við mbl.is. Mennirnir voru í gær úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í tengslum við hvarf Birnu. Lögreglan hefur sagt í fréttum í morgun að þeir séu grunaðir um „alvarlegan glæp“.
Morten Nielsen, yfirsaksóknari hjá lögreglunni á Grænlandi, segist í samtali við mbl.is hafa átt í töluverðum samskiptum við íslensk yfirvöld vegna rannsóknar á hvarfi Birnu síðustu daga. Hann vill hins vegar ekki gefa neitt upp um það hvaða upplýsingar hafi farið á milli.
Yfirheyrslur yfir mönnunum hófust að nýju á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í morgun. Ekki er vitað hvað þær munu standa lengi en aðeins má yfirheyra fólk í 12 klukkustundir á hverjum sólarhring. Að loknum yfirheyrslum í dag verða mennirnir fluttir í einangrun á Litla-Hrauni.
Grímur segir að engar játningar liggi fyrir eftir yfirheyrslur morgunsins. Í gær kom fram að þeir neituðu sök í málinu. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um hvað komið hafi fram við yfirheyrslur á mönnunum í morgun.
Grímur segir að talið sé að Birna hafi verið í bíl sem mennirnir tóku á leigu, á einhverjum
tímapunkti. Líklegast er talið að hún hafi farið inn í bílinn á Laugavegi, en kl. 5.25 að morgni laugardags sáust bæði Birna og bíllinn á eftirlitsmyndavélum á sama stað.
Hins vegar segir Grímur að einnig sé enn verið að skoða aðra möguleika, m.a. hvort Birna hafi gengið niður Vatnsstíg og farið upp í bílinn á Hverfisgötu. Hann segir þann möguleika þó fjarlægari. „En það er mikilvægt að hafa opinn huga fyrir því hvernig hlutirnir gætu hafa gerst, það á ekki að festa þá niður nema maður hafi sönnun um að eitthvað hafi gerst með ákveðnum hætti.“
Grímur segir að einnig sé verið að skoða hvar bílinn sjáist ekki á myndavélum svo hægt sé að útiloka ákveðna staði og svæði.
Sýni, m.a. lífsýni, hafa verið send utan til rannsóknar. Sýnin voru m.a. tekin í bílnum sem lögreglan lagði hald á á þriðjudag og er sá hinn sami og skipverjarnir sáust koma á inn á hafnarsvæðið í Hafnarfirði morguninn sem Birna hvarf. Grímur vill ekki segja hvort niðurstaða sé komin í þeirri rannsókn.
Lögreglan hefur ekki ákveðið hvenær hún mun sleppa alfarið tökunum á Polar Nanoq, togaranum grænlenska, sem nú liggur við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn. Enn er verið að rannsaka skipið. Grímur segir að aðeins 3-4 skipverjar fái að koma um borð, þ.e. þeir sem þurfi að sinna skipinu. Aðrir hafa ekki fengið leyfi til að fara þangað. Þá segir Grímur ekki rétt sem haft er eftir útgerðarstjóra útgerðarinnar Polar Seafood í grænlenskum fjölmiðlum, að 40 kíló af hassi hafi fundist um borð í skipinu. Kílóin séu rúmlega tuttugu samkvæmt bráðabirgðatölum.
- Vitið þið eitthvað núna hvar Birna er?
„Nei. Ef hún finnst ekki í dag verður viðamikil leit á morgun.“