Rannsaka hvort Birnu hafi verið ráðinn bani

Annar sakborninganna í málinu.
Annar sakborninganna í málinu. mbl.is/Eggert

„Því miður er einn af þeim möguleikum að hvarf Birnu tengist því að henni hafi verið ráðinn bani.“ Þetta segir Grímur Grímsson, stjórnandi lögreglurannsóknarinnar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur sem hefur ekki sést síðan á aðfaranótt laugardags. Hann segir langan tíma vera liðinn frá hvarfi hennar, eða um sex og hálfan sólarhring og því sé ekki hægt að horfa fram hjá því að Birna hafi horfið af mannavöldum.

Greindu mennina á nokkrum stöðum í miðbænum

Lögreglan hefur að sögn Gríms náð að greina rauða bílinn, sem lagt var hald á og tengdist skipverjunum tveimur sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, á fleiri stöðum niðrí Kvosinni í miðbænum. Þá hafa mennirnir einnig sést á þessu tímabili á myndbandsupptökum. Grímur vill ekki segja til um hvar það hafi verið, en staðfestir að í einu tilfelli hafi það verið inni, en þó ekki á skemmtistaðnum Húrra, þar sem Birna hafði verið að skemmta sér. Hann tekur fram að Birna og mennirnir tveir hafi aldrei sést saman á umræddum myndböndum.

Vinna lögreglunnar við að greina farsímagögn heldur áfram og segir Grímur að lögreglan hafi fengið talsverðan fjölda úrskurða til að fá þau gögn. Slíkt sé þörf þegar um sé að ræða síma- og fjarskiptagögn og það eigi við í þessu máli.

Meðal annars rannsakað hvort Birnu hafi verið ráðinn bani

Mennirnir tveir voru sem fyrr segir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tvær vikur frá og með síðasta miðvikudegi. Hefur sá úrskurður verið kærður til Hæstaréttar. Grímur segist ekki vilja gefa upp á hvaða lagagrein sá úrskurður byggist, en sem fyrr segir rannsakar lögreglan málið meðal annars út frá því að Birnu hafi verið ráðinn bani.

4,5 klst tímarammi á laugardaginn aðalatriðið

Aðalatriðið í rannsókn lögreglu þessa stundina er að sögn Gríms ferðir rauðu bifreiðarinnar á milli klukkan 7 og 11:30 að morgni laugardagsins, en á því tímabili er ekki vitað um ferðir bílsins. Sást hann á myndavélum við höfnina í Hafnarfirði klukkan 7 en hélt svo í burtu og kom ekki fyrr en 11:30 aftur.

Fyrr í dag beindi lögreglan þeim til­mæl­um til öku­manna bif­reiða sem búa yfir mynda­véla­búnaði að þeir yf­ir­fari mynd­efnið í þeirri von að það geti gagn­ast lög­reglu við leit henn­ar að Birnu. Segir Grímur að með þessu vonist lögreglan til að geta fyllt upp í eyðuna sem þessi tímarammi sé í málinu.

Segir Grímur að illa hafi gengið að útiloka hvert bíllinn gæti hafa farið frá höfninni og því sé mjög stórt svæði til skoðunar.  „Það er aðalatriði að verða sér út um upplýsingar um bílinn á þessum tíma. Það vantar upp á myndina,“ segir hann.

Umfangsmikil leit á morgun

Á morgun er áformuð umfangsmikil leit björgunarsveitafólks þar sem meðal annars verður unnið út frá þessum gögnum. Verður leitað á svæði sem nær frá Reykjanesi yfir á Suðurland og upp í Borgarfjörð.

Mennirnir tveir hafa verið yfirheyrðir í dag og segir Grímur að þeim sé ekki lokið. Segir hann að engin játning liggi fyrir í málinu. Yfirheyrslurnar hafi þó gengið ágætlega, en lögreglan hafi ekki fengið neinar upplýsingar sem hafi gefið frekari vísbendingar.

Lífsýni úr bílnum og skipi send til rannsóknar

Lífsýni voru bæði tekin úr bílnum og úr skipinu og hafa verið send til rannsóknar. Grímur vill að öðru leyti ekki segja nánar um slík rannsóknargögn.

Seinni partinn í dag óskaði lögregla eftir því að finna ökumann hvítrar bifreiðar sem sást við höfnina í Hafnarfirði á laugardaginn. Tekið var fram að ekki væri talið að ökumaðurinn tengdist hvarfi Birnu en gæti mögulega búið yfir upplýsigum fyrir rannsókn málsins. Grímur segir að enn hafi sú leit ekki borið neinn árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert