Mennirnir sem eru í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur verða áfram yfirheyrðir í dag, en lögreglan hefur sent rannsóknargögn úr rauðu Kia Rio-bifreiðinni til frekari rannsóknar í útlöndum. Björgunarsveitarmenn voru við leit á Strandarheiði langt fram eftir kvöldi í gær, en stöðufundur svæðisstjórnar og lögreglunnar um framhald leitar verður haldinn klukkan 9 eins og undanfarna daga.
Ekkert hefur spurst til Birnu frá því hún sást á eftirlitsmyndavélum á sjötta tímanum á laugardagsmorgninum, í rúma sex sólarhringa.
Tveir skipverjar af togaranum Polar Nanoq voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í gær en saksóknari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar, þar sem farið er fram á lengra gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur vegna alvarleika málsins. Forsendur fyrir beiðni um gæsluvarðhald hafa ekki verið birtar og því liggur ekki fyrir á hvaða grundvelli beiðni lögreglunnar byggir.
Alls voru fjórir skipverjar handteknir en einn er laus úr haldi og ekki í farbanni enda ekki talið að hann tengist hvarfi Birnu Brjánsdóttur aðfaranótt laugardags. Fjórði maðurinn var í nótt úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudags vegna 20 kg af hassi sem fundust við leit um borð í togaranum aðfaranótt fimmtudags.
„Ég vona að með hverri klukkustundinni séum við nær því að finna Birnu. Að það safnist í þennan sarp upplýsingar sem leiði til þess að við munum finna hana,“ sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is seint í gærkvöldi.
Grímur segir rökstuddan grun vera fyrir því að rauða Kia Rio-bifreiðin sem sást á Laugavegi á svipuðum tíma og síðast sást til Birnu sé sú sama og lögregla tók til rannsóknar á miðvikudag.
„Frá upphafi höfum við verið að tala um þennan rauða Kia Rio sem sést á mjög svipuðum tíma og síðast sést til Birnu í myndavélum. Þannig að ein kenningin hefur verið sú að hún hafi farið upp í þennan bíl og að það kunni að vera sami bíll og menn sem við höfum nú handtekið leigðu. Þetta er myndin sem við erum að vinna eftir.“
Púslið sem vantar í myndina er hins vegar Birna sjálf og greiningarvinna felst nú í því að reyna að sjá bílinn og Birnu á myndböndum sem lögregla hefur fengið afhent. „Við erum að reyna að kortleggja för bílsins og það er greining á þeim gögnum sem við erum að horfa til. Púslið sem enn vantar er að við þurfum að staðfesta að það sé raunverulega rétt að Birna hafi farið upp í þennan bíl. Það höfum við enn ekki getað gert.“ Grímur segir lögreglu hins vegar vilja benda á að sími Birnu ferðist suður í Hafnarfjörð og að umræddur bílaleigubíll hafi verið í Hafnarfirði.
Verið er að rannsaka síma mannanna og segir Grímur búið að kanna staðsetningu þeirra. „Það er hluti af þeirri rannsókn sem er í gangi,“ segir hann en kveðst ekki geta tjáð sig um það hvort farsímagögn gefi til kynna að símar mannanna hafi verið í nágrenni við síma Birnu.