Sjást á svipuðu svæði og Birna í bænum

Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni …
Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni laugardagsins 14. janúar. Lögregla telur að til hinna grunuðu og Birnu sjáist á svipuðu svæði í miðbænum. Myndir/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglu hefur tekist að staðsetja skipverjana tvo á „svipuðu svæði, á svipuðum tíma“ og Birnu Brjánsdóttur í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags fyrir tæpri viku. Sést það á myndbandsupptökum úr miðbænum. Skipverjarnir eru í gæsluvarðhaldi, grunaðir um refsivert athæfi í tengslum við hvarf Birnu.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. „Ég get sagt það að til þeirra [hinna grunuðu] sést í miðbænum,“ segir Grímur.

Meðal þess sem hefur verið skoðað eru myndbandsupptökur frá skemmtistaðnum Húrra þar sem Birna var ásamt vinum sínum umrædda nótt. Grímur tjáir sig ekki um það hvort til mannanna sést á þeim upptökum. Þá tjáir hann sig ekki um það hvort mennirnir hafi verið fótgangandi eða á ökutæki í miðbænum. 

„Við höfum ekki séð fundum þeirra bera saman,“ segir Grímur.

- En hafið þið séð þau [Birnu og hina grunuðu] á svipuðu svæði í miðbænum?

„Já“ segir Grímur og bætir við: „Við teljum okkur sjá þá [hina grunuðu] á þessum myndum í miðbænum þessa nótt,“ segir Grímur. 

- Sjást þau á svipuðu svæði á sama tíma? 

„Á svipuðu svæði og svipuðum tíma,“ segir Grímur. 

Lögðu hald á föt mannanna

Aðspurður hvort  búið sé að leggja hald á föt sem mennirnir voru í umrætt kvöld,  segir Grímur: „Við lögðum hald á töluvert mikið af eigum þeirra, föt og aðrar eigur við leit í skipinu og þegar þeir voru handteknir. Við lögðum hald á föt og það blasir við að við vorum að leita að fötum sem þeir voru í umrætt kvöld,“ segir Grímur. 

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert