Allar forsendur eru fyrir því að vakta Laugaveginn með eftirlitsmyndavélum þannig að hægt sé að sjá á greinilegri hátt umferð gangandi vegfarenda og bíla.
Þetta segir Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, aðspurður. Síðast sást til Birnu Brjánsdóttur á eftirlitsmyndavél á Laugaveginum. Nokkurn tíma hefur tekið fyrir lögregluna að greina ferðir hennar, meðal annars með aðstoð myndavéla.
Hann nefnir að tækninni hafi fleygt mjög fram á síðustu árum og hægt sé að fá öflugri vélar en þær sem eru núna notaðar víða í miðborginni, þó svo að þær séu ekki gamlar.
„Ef menn vilja vakta þannig að hægt sé að greina fólk og númeraplötur þá býður tæknin upp á það allt saman. Menn þurfa bara að átta sig á hvað þeir vilja gera,“ segir Ómar Örn og bætir við að búnaðurinn sé orðinn mun ódýrari en áður.
Hann segir að nýjustu vélarnar geti tekið mjög auðveldlega upp í myrkri. Þar er notast við svokallaða „Starlight“-tækni með innrauðu ljósi sem sér mun betur en mannsaugað.
Eftir að leitin að Birnu hófst segir Ómar að strax á eftir hafi Öryggismiðstöðin fengið mikil viðbrögð frá almenningi og fyrirtækjum. „Okkar viðskiptavinir hafa verið að skipta út vélum og eins setja ný kerfi upp,“ segir hann.