Gríðarlega umfangsmikil leit að Birnu Brjánsdóttur, sem hefur verið saknað í viku, fer af stað í birtingu. Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns hafa engar nýjar upplýsingar varðandi hvarf Birnu borist í nótt en leit í gær lauk um kvöldmatarleytið.
Björgunarsveitir hvaðanæva af landinu hafa lagt leið sína til höfuðborgarinnar til að taka þátt í aðgerðum í dag. Á þessari stundu er útlit fyrir að um 500 taki þátt í leitinni og enn getur bæst í hópinn, samkvæmt heimildum mbl.is.
Verkefnin sem liggja fyrir skipta þúsundum, segir Ásgeir.
Leit verður hafin í nágrenni Hafnarfjarðar og á Reykjanesi en leitarsvæðið afmarkast af þeim kílómetrafjölda sem ekinn var á margumræddri Kia Rio-bifreið.
Yfirvöld hafa freistað þess að þrengja svæðið eitthvað með því að útiloka leiðir ófærar fólksbifreiðum.
„Við erum búnir að vera að reyna að fara yfir þessa vegi og vegslóða og athuga hvar við teljum ekki hafa verið mögulegt að aka á þessari bifreið sem um ræðir og reyna að takmarka okkur. Því við verðum að gera allt sem við getum til að reyna að vera ekki að leita þar sem ekki er möguleiki að þessi bifreið hafi farið, hvort sem er vegna snjóa eða vegna þess að vegslóðar eru of grófir,“ útskýrir Ásgeir.
Ljóst er að risavaxið verkefni bíður leitarmanna.
„Það er búið að skipta þessu niður í verkefni og verkefnin skipta þúsundum,“ segir Ásgeir. „Við erum náttúrulega búin að forgangsraða svæðunum frá því sem við teljum vera líklegt og yfir í það sem við teljum minna líklegt.“
Spurður um áskoranir dagsins, fyrir utan hreina stærð leitarsvæðisins, segir Ásgeir þær nokkrar.
„Áskoranirnar eru náttúrulega að klára verkefnið,“ segir hann. „Og þó að það sé náttúrulega gott að snjórinn er farinn þá er veðrið þannig að það er rok og rigning, sem eru ekki kjöraðstæður fyrir björgunarfólk til leitar. Áskoranirnar eru líka þær að björgunarfólkið sem við erum að senda út komi heilt heim frá þessu, að það slasi sig ekki. En stóra áskorunin er að það komi eitthvað út úr þessu og við klárum málið.“
Eitt af því sem setur leitinni skorður er takmörkuð dagsbirta.
„Við erum núna með birtu frá sirka hálftíu til fimm,“ segir Ásgeir. „Þess vegna erum við að byrja svona snemma og ætlum að koma með alla út strax í birtingu, þannig að við getum nýtt hvern einasta dagsljósgeisla sem við höfum til ráðstöfunar.“
Ásgeir segist gera ráð fyrir að leit haldi áfram á morgun og hún verði mögulega jafnumfangsmikil og í dag.
En hvaða svæði eru í forgangi?
„Við ætlum að byrja í kringum Hafnarfjörð og raunverulega Reykjanesið, út á Suðurstrandaveg og í Heiðmörk.“
Þegar talið berst að umfangi aðgerða og þeim mikla mannskap sem hefur streymt að til að taka þátt, segist Ásgeir snortinn. „Það skiptir engu hvort um er að ræða stórar sveitir eða litlar, það eru allir að leggja hönd á plóg.“
Samkvæmt Slysavarnafélaginu Landsbjörg verða drónar og hundar notaðir við leitina, fjöldi fjórhjóla og bíla og tvær þyrlur. Leitin hefst kl. 9.