„Mér fannst umræðan farin út í öfgar og ekki í takt við veruleikann,“ segir Inga-Dora Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins. Undanfarna daga hafa grænlenskir miðlar birt fréttir þess efnis að Grænlendingar hafi orðið fyrir áreiti hér á landi í tengslum við fréttaflutning af hvarfi Birnu Brjánsdóttur.
Inga-Dora, sem er hálfgrænlensk en býr á Íslandi, ræddi því við grænlenska miðla í gær og leiðrétti rangfærslur þeirra. „Mér fannst ég verða að leiðrétta þetta svo fólk væri ekki að taka ákvarðanir út frá röngum forsendum.“
Frétt mbl.is - Grænlendingar mæti óvild hér á landi
„Ástandinu var lýst þannig að Grænlendingar væru að hætta við ferðir til Íslands vegna málsins. Þess vegna fannst mér ég þurfa að grípa inn í og útskýra að það er ekki verið að úthrópa alla Grænlendinga hér á landi. Heilli þjóð eða þjóðflokki getur ekki verið refsað fyrir afbrot einhverra tveggja og við vitum náttúrulega ekki enn hvort þeir hafi gert eitthvað af sér eða ekki,“ segir Inga-Dora.
Hún segir Grænlendinga á Íslandi ekki hafa orðið fyrir áreitni vegna málsins og því hafi verið þörf á að leiðrétta fréttaflutning grænlensku miðlanna. „Grænlensku miðlarnir hafa verið að mistúlka stöðuna og telja ástandið á Íslandi annað en það er. Við, Grænlendingar á Íslandi, erum með Facebook-síðu þar sem ein spurði hvort einhverjir hefðu orðið fyrir áreiti en það vildi enginn kannast við það.“