Á fundi Faxaflóahafna í gær varð niðurstaðan sú að Silicor Materials fær lokafrest til septembermánaðar til að standa skil á gjöldum vegna hafnarsamnings, lóðaleigusamnings og lóðagjaldasamnings um fyrirhugaða aðstöðu fyrirtækisins við Grundartanga í Hvalfirði.
Meðal skilyrða sem sett voru af hálfu stjórnar Faxaflóahafna fyrir lokafrestinum er að haft verði samráð við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og fjármálaráðuneyti vegna fjárfestingarsamnings Silicor og ríkisins um frágang málsins þannig að veittur lokafrestur rúmist innan ákvæða þess samnings.
Jafnframt verði ekki af hálfu Faxaflóahafna hafnar neinar framkvæmdir sem efni samninganna lýtur að, á meðan unnið er að fjármögnun verkefnisins og samningar aðila hafa ekki tekið gildi. Þá er áskilið að Silicor Materials upplýsi um gang viðræðna þess við fjárfesta og geri grein fyrir eins fljótt og kostur er hvort af verkefninu verði eða ekki.