Út frá farsímagögnum hefur lögreglu tekist að kortleggja ferðir skipverjanna tveggja að nóttu laugardags og til klukkan 7 að morgni laugardags fyrir viku með nokkuð nákvæmum hætti. Farsímar mannanna tengjast fjarsímamöstrum að nýju um fjórum tímum síðar eða á tólfta tímanum.
„Við höfum kortlagt bílinn í Reykjavík og við höfum kortlagt bílinn í Hafnarfirði. Síðan hvernig hann ferðast þangað nokkurn veginn. Hvað gerist síðan er ekki eitthvað sem hægt er að fara út í,“ segi Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Grímur segir að unnið sé út frá ákveðinni tilgátu um hvað hafi gerst. „Við göngum út frá einni líklegri tilgátu. Ég get sagt það að einn hluti tilgátunnar er sá að Birna hafi farið upp í bílinn til móts við Laugaveg 31,“ segir Grímur.
-Er vettvangur glæpsins inni í þessari tilgátu?
„Já en það er ekki mjög niður njörvað. En það ber að taka það fram að það getur verið að það hafi verið drýgð refsiverð háttsemi, en það getur líka verið að það hafi ekki verið gert. En það má sjá af því miðað við það að mennirnir hafa verið settir í gæsluvarðhald að við teljum að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða,“ segir Grímur.
Þar sem hægt er að segja til um ferðir bílsins með nokkuð nákvæmum hætti til klukkan 7 um morguninn hefur lögregla lagt sérstaka áherslu á það að fá upplýsingar um ferðir rauða Kia Rio bílsins frá klukkan 7-11.30 að morgni laugardags.
„Öflun farsímagagna er mjög lifandi vinna og við getum sífellt verið að fá nýjar upplýsingar til að vinna með. Eins geta alltaf borist ný myndbönd sem hjálpa til við rannsókn málsins,“ segir Grímur. „Við erum að vinna í því að þétta málið eins og mögulegt er. Að fylla í eyðurnar. Stundum þarf að rýna gögnin upp á nýtt og fá aðra til þess að gera það,“ segir Grímur.
Að sögn Gríms Grímssonar hefur sést til skipverjanna tveggja og Birnu á skemmtistöðum í miðborg Reykjavíkur umrætt kvöld. Lögregla hefur hins vegar ekki myndbandsupptökur af þeim á sama skemmtistað á sama tíma. „Gögnin sýna það ekki,“ segir Grímur.
Þá segir Grímur að ekki hafi sést til annarra skipverja af Polar Nanoq í miðbænum þetta kvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð