Klukkan 5.25 í morgun, laugardag, var vika liðin frá því að síðast sást til hinnar tvítugu Birnu Brjánsdóttur. Í birtingu hefst allsherjar leit að henni víðs vegar um suðvesturhorn landsins. Talið er mögulegt að henni hafi verið ráðinn bani.
Birna fór út á lífið með vinkonu sinni að kvöldi föstudagsins 13. janúar, rétt eins og hundruð önnur íslensk ungmenni. Þær fóru á bíl föður hennar í bæinn og honum lögðu þær við Tjörnina í Reykjavík.
Vinkonurnar spiluðu, dönsuðu, hlógu og skemmtu sér vel fram á nótt. Um kl. 5 fór Birna ein síns liðs út af skemmtistaðnum Húrra í Tryggvagötu. Hún kom við á veitingastaðnum Ali Baba skammt frá Ingólfstorgi og greip með sér skyndibita. Hún gekk svo um Austurstræti, Bankastræti, Skólavörðustíg, Smiðjustíg og þaðan út á Laugaveg. Þar sést hún síðast á eftirlitsmyndavél kl. 5.25, fyrir nákvæmlega viku.
Það sem vakti eftirtekt lögreglu allt frá upphafi rannsóknar á hvarfi Birnu var rauður bíll sem ók vestur Laugaveg og fram hjá húsi nr. 31, sama húsi og nánast á sama tíma og Birna sást þar í mynd.
Í fyrstu óskaði lögreglan eftir að ná tali af bílstjóranum en myndin var ógreinileg og ekki hægt að sjá bílnúmerið. Lýst var eftir þriggja dyra rauðum Kia Rio, en síðar var lýsingunni breytt og bíllinn sagður fimm dyra. Enginn gaf sig fram. Einnig var lýst eftir vegfarendum sem höfðu orðið á vegi hennar. Það skilaði heldur ekki árangri.
Eftir að Birna mætti ekki til vinnu í Hagkaup í Kringlunni að morgni laugardags, var haft samband við foreldra hennar sem síðan höfðu samband við lögreglu. Um miðnætti birti lögreglan fyrstu tilkynninguna þar sem lýst var eftir henni. Hún var svohljóðandi:
„Lögregla leitar að Birnu Brjánsdóttur fæddri ´96. Birna er 170 cm há, u.þ.b. 70 kg með sítt ljóst rautt hár. Birna var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og svarta Dr. Martin-skó. Síðast er vitað um Birnu í miðborg Reykjavíkur um kl. 02:00 – 03:00 sl. nótt.“
Lögreglan lýsir reglulega eftir ungu fólki með svipuðu orðalagi, m.a. þeim sem strjúka að heiman, og því var auglýsingin ekkert óvenjuleg. En þegar móðir hennar og aðstandendur stigu fram og sögðu að ekki væri allt með felldu, Birna myndi aldrei láta sig hverfa, varð ljóst að um mannshvarf væri að ræða.
Frá morgni til kvölds á sunnudeginum leituðu tugir manna Birnu út frá þeim stöðum sem talið var að hana gæti verið að finna, m.a. í miðborg Reykjavíkur og í Hafnarfirði. Meðal þeirra sem leituðu voru vinir og ættingjar Birnu og fjölskyldu hennar en einnig fólk sem tengist henni ekki neitt.
Sérhæfðir björgunarsveitarmenn hófu svo leit að vísbendingum í miðbæ Reykjavíkur á mánudeginum. Fyrst var leitað í 300 metra radíus frá þeim stað þar sem hún sást síðast á eftirlitsmyndavélum. Sú leit bar engan árangur.
Um kvöldið bar hins vegar leit óbreyttra borgara árangur er skór fundust við birgðastöð Atlantsolíu við Hafnarfjarðarhöfn. Síðar var staðfest að skórnir væru í eigu Birnu og þeir hinir sömu og hún klæddist nóttina sem hún hvarf.
Lögreglan lagði gríðarlega áherslu á það að finna Birnu allt frá upphafi og varpa ljósi á hvarf hennar. Smám saman tókst henni, m.a. með fjarskiptagögnum og myndum úr eftirlitsmyndavélum, að kortleggja ferðir Birnu í bænum og hvar loks er slökkt á símanum hennar í Hafnarfirði.
Rannsóknin hélt áfram að snúast um rauða bílinn, ekki síst eftir að hann sást á myndavélum við höfnina í Hafnarfirði, nokkrum mínútum eftir að slökkt var á farsíma Birnu. Bíllinn sást fara inn og út af hafnarsvæðinu allt frá því kl. 6.10 um morguninn. Hann er m.a. ekki inni á svæðinu í rúma fjóra tíma, milli kl. 7 og 11.30, og ekki er útilokað að á þeim tíma hafi honum verið ekið út af höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sökum hefur verið óskað eftir myndbandsupptökum úr ökutækjum frá þessu tímabili sem voru á ferð allt frá Borgarfirði til Selfoss og á Reykjanesi. Af sömu ástæðum verður nú í dag gerð allsherjarleit að Birnu eða vísbendingum um hana, á þessu stóra svæði.
Hald var lagt á bílinn þriðjudaginn 17. janúar. Skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq höfðu haft hann á leigu en skipið lagði úr höfn að kvöldi laugardagsins, rúmum hálfum sólarhring eftir að Birna hvarf. Sterkur grunur hafði því kviknað um að einhverjir skipverjar væru viðriðnir hvarfið með einum eða öðrum hætti.
Farið var í umfangsmikla aðgerð á hafi úti á miðvikudag er sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra sigu um borð í togarann. Hann var kominn að ströndum Grænlands er ákveðið var að snúa honum aftur til hafnar á Íslandi að beiðni íslenskra lögregluyfirvalda. Danska varðskipið Triton fylgdi togaranum eftir allt til hafnar.
Þrír menn voru handteknir um borð. Tveir þeirra voru síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Er sá úrskurður byggður á grunsemdum um manndráp. Þeim þriðja var sleppt úr haldi. Rannsókn var gerð í skipinu og hald lagt á ýmsa muni en einnig fíkniefni, um 20 kíló af hassi.
Í gær upplýsti lögreglan svo að mennirnir tveir hefðu sést á svipuðum stað á svipuðum tíma og Birna í miðbænum hina örlagaríku nótt. Þá telur lögreglan líklegt að Birna hafi farið í bíl þeirra á Laugavegi, skömmu eftir að síðast sást til hennar. Einnig hefur lögreglu tekist að rekja slóðir síma tvímenninganna um fjarskiptamöstur höfuðborgarsvæðisins og reyndust þær sambærilegar ferðum síma Birnu frá miðbæ Reykjvíkur og út í Hafnarfjörð. Við yfirheyrslur í gær sögðu mennirnir að ekki væri útilokað að þeir hefðu hitt Birnu. Þeir neita þó að hafa ráðið henni bana.
Greint var frá því í gærkvöldi að lífsýni hefðu verið tekin úr fötum sem fundust í skipinu. Þá voru lífsýni einnig tekin úr bifreiðinni, bæði farþegarými og skotti og send til rannsóknar erlendis. Leggur lögreglan mikla áherslu á að hraða rannsókn á þessum gögnum auk þess sem horft er til þess tíma sem bíllinn var ekki við höfnina á laugardagsmorguninn, þ.e. í rúmlega fjórar klukkustundir. Miðast leitin í dag meðal annars við það svæði sem hægt hefði verið að keyra um á þeim tíma.
Þrátt fyrir að lögreglu hafi orðið vel ágengt við rannsókn málsins síðustu daga veit hún ekki enn hvar Birnu er að finna og hefur ekki tekist að tengja hana beint við rauðu Kia Rio-bifreiðina.
Hennar hefur nú verið saknað í sjö daga, eða 168 klukkustundir.