Birna fannst látin við Selvogsvita

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Grímur …
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sátu fyrir svörum á blaðamannafundi lögreglunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birna Brjánsdóttir, stúlkan sem leitað hefur verið að í rúmlega viku, fannst látin í dag. Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að henni alla helgina. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kom auga á lík í fjörunni við Selvogsvita á Reykjanesi fyrr í dag. Lögreglan telur að um Birnu sé að ræða en kennslanefnd ríkislögreglustjóra á eftir að staðfesta það með frekari rannsóknum.

Lögreglan telur yfirgnæfandi líkur á því að mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi séu þeir sem beri ábyrgð á hvarfi hennar og hafi ráðið henni bana. Sá grunur lögreglunnar hefur styrkst enn frekar síðustu daga. 

„Við teljum að það séu yfirgnæfandi líkur á því að henni hafi verið ráðinn bani,“ sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á blaðmannafundi lögreglunnar nú kl. 17. Hann segir líklegast að það hafi gerst í bílnum sem tvímenningarnir voru með á leigu. Ekki sé þó enn hægt að segja til um dánarorsök eða hvenær hún lést. Slíkt verður ekki staðfest fyrr en eftir nokkra daga.

Líkið fannst í fjöru skammt frá Selvogsvitanum og telur lögreglan líkur á því að það hafi rekið í fjöruna. Ekki er enn vitað hvaða leið mennirnir fóru með Birnu frá Hafnarfirði og út á Reykjanes.

„Þó að við teljum okkur búin að finna lík Birnu er leit ekki lokið og enn þá leitaraðgerðir í gangi í dag og í kvöld og næstu daga,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. 

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir.

Verið saknað í rúmlega átta sólarhringa

Birna var tvítug. Hún sást síðast á eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur kl. 5.25 að morgni laugardagsins 14. janúar, fyrir rúmlega átta sólarhringum.

Tveir menn eru í haldi, grunaðir um aðild að málinu. Þeir eru báðir skipverjar á grænlenskum togara, Polar Nanoq, sem lá við Hafnarfjarðarhöfn morguninn sem hún hvarf. Þeir voru handteknir af sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra um borð í skipinu laust eftir hádegi á miðvikudag. Þeir hafa neitað sök við yfirheyrslur lögreglu.

Fyrr í dag var staðfest að lífsýni sem fundust í rauðum Kia Rio-bíl, sem skipverjarnir voru með á leigu og lögreglan lagði hald á á þriðjudag, væru af Birnu. Áður hafði komið fram að meðal lífsýna sem fundust, og voru send til útlanda til frekari rannsóknar, hafi verið blóð.

Vísbendingar um rauða smábíla

Lögreglan segist hafa fengið vísbendingar um ferðir rauðra smábíla á Reykjanesi um það leyti sem Birna hvarf. „Það er þess vegna sem við vorum að einbeita okkur að Reykjanesinu til að byrja með. Það er möguleiki á að þessar vísbendingar hafi átt við rök að styðjast,“ sagði Ásgeir Þór.

Hvíti bíllinn, sem lögreglan lýsti eftir fyrir helgi, er enn ófundinn.

- Telst málið núna upplýst í meginatriðum?

„Það má segja að við höfum þokast mjög mikið áfram undanfarna daga,“ sagði Grímur. „Þetta er ákveðinn tímapunktur, þegar líkið finnst. Það er líka töluverð ... hvað á ég að segja? ... við erum komin á þann stað að við getum ekki lengur vonast til þess að finna Birnu á lífi. Sá tímapunktur er kominn og það er vendipunktur í þessu máli öllu saman. En við teljum okkur vel á veg komna með rannsóknina. Auðvitað eru fjölmargir hlutir sem við eigum eftir að skoða.“

Þekkti mennina ekki

Lögreglan sagði á fundinum að ekkert benti til þess að Birna hefði átt í samskiptum við mennina fyrr um kvöldið, þ.e. áður en hún fór upp í bílinn, líklega við hús nr. 31 við Laugaveg. Ljóst þyki að þau hafi ekki þekkst eða verið í samskiptum áður.

Lögreglan segir atburðarásina, eins og hún birtist henni, til dæmis varðandi ferðir bílsins og aðkomu mannanna tveggja, nokkuð ljósa. Hins vegar eigi eftir að kortleggja ferðir bílsins betur.  Unnið verði að því áfram, m.a. með upptökum úr eftirlitsmyndavélum, farsímagögnum og upplýsingum sem kunna að koma fram við yfirheyrslur á mönnunum. „Nú vitum við hvert við eigum að beina sjónum okkar,“ sagði Grímur.

Mennirnir tveir verða áfram yfirheyrðir á morgun eða þriðjudag. Þeir voru ekki yfirheyrðir um helgina. „Þeir eru núna í einangrun og vita væntanlega ekki af þessu,“ sagði Ásgeir Þór. Það sama megi segja um þá niðurstöðu að lífsýni úr bílnum séu af Birnu. Lögreglan hefur ekki upplýst mennina um það.

Ekki varpað í sjóinn af skipi

Lögreglan telur ekki koma til álita að Birnu hafi verið varpað í sjóinn af skipi. Hins vegar telur hún vel geta komið til greina að henni hafi verið komið fyrir í sjónum á öðrum stað en hún fannst á. 

Lögreglan segir ekki hægt að segja til um á þessari stundu hvort Birna hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Hún staðfestir að verið sé að leita að vopni, en þó ekki einu ákveðnu. „Það kann að vera að henni hafi verið ráðinn bani með vopni. Þetta er til skoðunar,“ sagði Grímur.

Fjölskyldan þakkar stuðning

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þakkar öllum þeim sem hafa lagt óeigingjarnt starf af mörkum og á það ekki síst við um björgunarsveitir og almenning sem sendi inn margar ábendingar varðandi málið,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á fundinum í dag. Hún sagði fjölskyldu Birnu vilja koma á framfæri þökkum fyrir stuðninginn.

„Við vottum fjölskyldu Birnu og vinum innilega samúð,“ sagði Sigríður Björk. 

725 björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinni að Birnu síðustu daga. Enn verður leitað vísbendinga á svæðinu í grennd við staðinn þar sem lík hennar fannst í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka