Söngelsk lögga gerir allt vitlaust

mbl.is/Styrmir Kári

Lögreglumaður á Norðausturlandi hristi heldur betur upp í starfssystkinum sínum nýverið þegar hann hóf upp raust sína. Eitthvað voru sönghæfileikarnir á reiki því vinnufélagarnir töldu að um árás væri að ræða.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðausturlandi er fjallað um „Please have mercy on me“-söngvarann.

„Einn af okkar mönnum lenti í því fyrir nokkrum dögum að koma inn á stöð eftir eftirlitsferð og hafði hann verið að hlusta á útvarpið í lögreglubifreiðinni. Þegar hann var kominn inn á stöð og steig út úr lögreglubifreiðinni var hann greinilega enn þá í gírnum og söng setningu úr laginu sem hann hafði verið að hlusta á „please have mercy on me“ með tilþrifum,“ segir í færslu lögreglunnar.

Það næsta sem hann vissi var að næturvaktin (sem var nýkomin í hús) kom hlaupandi á móti honum öskrandi: „hvað er eiginlega í gangi?!“

Söngelskandi lögreglumaðurinn útskýrði það og var tjáð að söngurinn hefði hljómað í gegnum vegginn eins og verið væri að ráðast á einhvern.

Hann hefur ekki gefið út hvort hann ætli að halda söngferlinum áfram eftir þetta, samkvæmt færslu lögreglunnar á Facebook.

 

 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert