Staðfest að Birna var í bílnum

Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni …
Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni laugardagsins 14. janúar. Á sama tíma sást rauður bíll, líklega af gerðinni Kia Rio, á veginum. Myndir/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið það staðfest að lífsýni sem fannst í rauðri Kia Rio-bifreið, sem tvímenningarnir sem sitja í gæsluvarðhaldi höfðu á leigu, er úr Birnu Brjánsdóttur sem leitað hefur verið að frá því um síðustu helgi. Það er því staðfest að Birna var í bifreiðinni, segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í tilkynningu til fjölmiðla.

„Svo sem kunnugt er lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á rauða Kia Rio-bifreið vegna rannsóknar málsins. Lífsýni úr bifreiðinni voru send utan til rannsóknar og liggur nú fyrir niðurstaða þeirrar rannsóknar þess efnis að lífsýnin eru úr Birnu Brjánsdóttur og telur lögregla því að fyrir liggi staðfesting á því að hún hafi verið í bifreiðinni,“ segir í tilkynningu.

Grímur segir í samtali við mbl.is að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort tvímenningarnir verði yfirheyrðir í dag en það getur verið. Tveir skipverjar af Polar Nanoq voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í síðustu viku vegna þess að þeir eru taldir tengjast hvarfi Birnu. Þeir voru síðast yfirheyrðir á föstudag en Birna hefur ekki enn fundist þrátt fyrir ítrekaða og gríðarlega umfangsmikla leit undanfarna daga.

Lögreglan og svæðisstjórn björgunarsveita mun fara yfir stöðu rannsóknarinnar og leitar að Birnu í hádeginu að sögn Gríms.

Það eru alltaf að þéttast upplýsingar og gögn um ferðir rauða Kia-Rio bílsins á laugardagsmorgninum fyrir rúmri viku en hingað til hefur ekki tekist að afla upplýsinga með óyggjandi hætti hvar hann var á tímabilinu 7 til 11 um morguninn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert