„Við vorum við yfirheyrslur í dag. Það var raunar bara annar yfirheyrður en við vorum við yfirheyrslur,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Grímur fer fyrir rannsókn í máli Birnu Brjánsdóttur sem fannst látin við Selvogsvita á Reykjanesi á sunnudag eftir að hafa verið týnd í rúma viku.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í dag að hún myndi ekki tjá sig frekar um rannsókn málsins í dag. Gat Grímur þó staðfest að lögregla hafi yfirheyrt annan mannanna í dag en getur ekki greint frá því hvor mannanna tveggja var yfirheyrður. Að öðru leyti kýs lögregla ekki að veita upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu en mun taka stöðuna aftur á morgun.
Frétt mbl.is: Tjá sig ekki frekar um rannsókn í dag