Skilríki Birnu sögð hafa fundist um borð

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan vill ekki staðfesta þær fréttir að skilríki Birnu Brjánsdóttur hafi fundist um borð í togaranum Polar Nanoq við leit sem gerð var í skipinu er það kom til hafnar í síðustu viku. Í frétt RÚV segir að skilríkin hafi fundist í ruslatunnu um borð. Er það haft eftir heimildum fréttastofu.

„Það er ekkert hægt að staðfesta um það,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, spurður hvort þetta væri rétt.

Hann segir að búið sé að ákveða að mennirnir tveir, sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa orðið Birnu að bana, verði yfirheyrðir í dag. Þeir eru nú í einangrun á Litla-Hrauni og hafa ekki verið yfirheyrðir frá því á föstudag. 

Í morgun hafa fjölmiðlar, bæði RÚV og DV, sagt frá …
Í morgun hafa fjölmiðlar, bæði RÚV og DV, sagt frá því að skilríki Birnu Brjánsdóttur hafi fundist um borð í Polar Nanoq. Þetta vill lögreglan ekki staðfesta.

Annar fór á bílnum í fjóra tíma

Samkvæmt frétt mbl.is frá því 19. janúar, komu skipverjarnir tveir í Hafnarfjarðarhöfn á rauða Kia Rio-bílnum sem þeir höfðu til umráða um kl. 6.10 að morgni laugardagsins sem Birna hvarf. Það var um 20 mínútum eftir að síðast voru numin merki frá síma hennar á fjarskiptamastri í Hafnarfirði. Þeir ræddust um stund við á bryggjunni. Í kjölfarið fór annar þeirra um borð í skipið en hinn fór aftur upp í bílinn og ók út af hafnarsvæðinu.

Frétt mbl.is: Ræddust góða stund við á bryggjunni

Lögreglan hefur sagt að bíllinn hafi ekki komið aftur inn á höfnina fyrr en rúmlega fjórum klukkustundum síðar. Verið að reyna að kortleggja nákvæmlega ferðir bílsins á þessum tíma. Það hefur enn ekki tekist.

Lík Birnu fannst við Selvogsvita á Reykjanesi um hádegi á sunnudag. Ekki er talið víst að Birnu hafi verið komið fyrir í sjónum á þeim stað og beinist rannsókn lögreglu nú m.a. að því hvar það gerðist.

Fram hefur komið að lögreglan telji líklegast að hún hafi dáið í bíl mannanna. Hvenær hún telur það hafa gerst hefur ekki verið uppgefið. Mennirnir skiluðu bílnum á bílaleiguna um miðjan dag á laugardag. Polar Nanoq lagði svo úr höfn í Hafnarfirði milli kl. 21 og 22 um kvöldið. 

Þar sem skipverjarnir hafa ekki verið yfirheyrðir í þrjá sólarhringa hafa þeir ekki fengið vitneskju, að minnsta kosti ekki frá lögreglu, um að Birna hafi fundist. Þá kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar á sunnudag að þeir vissu að blóð hefði fundist í bílnum, en ekki að staðfest væri að það væri úr Birnu. 

Gefa ekki frekari upplýsingar

Síðdeg­is í gær kom rétt­ar­meina­lækn­ir til lands­ins sem ann­ast slík­ar rann­sókn­ir hér á landi og sagði Grím­ur við mbl.is í morgun að ekki væri rétt að fjalla um þá rann­sókn að svo stöddu, hvorki hvort henni væri lokið né held­ur hvað hefði komið fram.

Lögreglan átti fund í morgun um stöðu málsins. Grímur segir að búið sé að ákveða að gefa ekki frekari upplýsingar um framgang rannsóknarinnar „í bili“ eins og hann orðaði það í samtali við mbl.is á tólfta tímanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert