Orkufyrirtæki greiði markaðsverð fyrir náttúruauðlindir

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að breyta íslensku regluverki og …
Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að breyta íslensku regluverki og tryggja þar með að raforkufyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu til orkuframleiðslu greiði markaðsverð fyrir slík afnot. mbl.is/RAX

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að breyta íslensku regluverki og tryggja þar með að raforkufyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu til orkuframleiðslu greiði ávallt markaðsverð fyrir slík afnot. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá EFTA.

Þar segir að íslensk stjórnvöld muni einnig fara yfir gildandi samninga með orkufyrirtækjunum til að tryggja að til framtíðar verði einnig greitt markaðsverð á grundvelli þeirra

Aðgerðir stjórnvalda byggjast á tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), en stofnunin fór í apríl í fyrra fram á gagngerða endurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála. Breytingin er sögð munu koma í veg fyrir ríkisaðstoð til orkufyrirtækja og tók gildi 1. janúar sl.

Í tilkynningunni segir að rannsókn ESA á málinu sé þar með lokið, en að stofnunin muni engu að síður fylgjast með framvindu mála af hálfu íslenskra stjórnvalda.

„Þessar breytingar eru til að tryggja eðlilegt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda í eigu almennings og þar með sanngjarna samkeppni á íslenskum raforkumarkaði,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá ESA.

Í apríl í fyrra fór ESA fram á að íslensk stjórnvöld tryggðu að endurgjald fyrir réttinn til að nýta náttúruauðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu yrði byggt á markaðsforsendum og var það samþykkt. 

Íslensk stjórnvöld hafa skipað starfshóp til að yfirfara gildandi löggjöf og leggja til nauðsynlegar breytingar og endurskoðun núgildandi samninga, til að tryggja að orkufyrirtæki greiði markaðsverð það sem eftir lifir af gildistíma samninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert