Höfðingslund Dana ekki sjálfgefin

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skoðuðu Árnasafn í Kaupmannahöfn í dag. mbl.is/Golli

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mætti snemma dags ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra á Árnasafn, systurstofnun Árnastofnunar á Íslandi sem staðsett er í útibúi Kaupmannahafnarháskóla, skammt frá Íslandsbryggju.

Í Árnasafni eru um 700 íslensk handrit sem ekki var skilað auk fjölda fornbréfa en heildartala handrita á safninu er nálægt 1500. 

Guðna voru sýnd vel valin handrit af starfsmönnum Árnasafns, eintak af Heimskringlu frá 14. öld sem meðal hefur að geyma staf sem margir kannast við úr vegabréfi sínu sem hannað var árið 1999. Það er stafurinn „K“ sem stendur fyrir „kringlu heimsins.“

Auk þeirra var Guðna meðal annars sýnt Codex Runicus, einstakt rúnahandrit með dönskum lögum frá um 1300. Í því handriti er meðal annars lagstúfur sem notaður var sem kynningarlag danska ríkisútvarpsins um langa hríð.

„Ég held að það sé til vitnis um góða samvinnu þessara tveggja ríkja að við deilum þessum arfi. Danir sýndu höfðingslund með því að skila okkur handritunum. Okkur finnst það skiljanlegt, sjálfsagt og eðlilegt. En í heiminum, eins og við vitum, er það ekkert endilega gefið að þjóðir fái fái það til baka það sem tekið var frá þeim fyrr á öldum,” sagði Guðni.

Frá heimsókn forseta og utanríkisráðherra í Árnastofnun í Kaupmannahöfn í …
Frá heimsókn forseta og utanríkisráðherra í Árnastofnun í Kaupmannahöfn í dag.

Eftir heimsóknina á Árnasafn mun Guðni meðal annars halda ræðu í Kaupmannahafnarháskóla þar sem haldnar verða hringborðsumræður um þjóðernishyggju og hnattvæðingu. Eftir það verður leiðinni meðal annars haldið í kynningar- og fræðslumiðstöð Marel. Í kvöld lýkur svo formlegri heimsókn Guðna er hann býður Margréti Þórhildi Danadrottningu í menningarhúsið við Norðurbryggju þar sem boðið verður upp á standandi hlaðborð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert