„Skýrslan vekur fleiri spurningar en svör,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í sérstakri umræðu um skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera, á Alþingi í dag.
Katrín var málshefjandi og tóku fjölmargir aðrir þingmenn til máls og var Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, til andsvara.
Í ræðu sinni rakti Katrín efni skýrslunnar og benti á að samkvæmt í niðurstöðu hennar væri enn margt óunnið og þyrfti að rannsaka enn frekar. Það þyrfti að skýra og skerpa rammann í kringum eignir Íslendinga á aflandssvæðum því ásetningurinn um að koma fé undan skatti væri alltaf til staðar og sagði að þetta fyndi sér alltaf „nýjar leiðir.“
Benedikt tók í sama streng og Katrín og sagði lokaorðin í skýrslunni segja þetta vera bráðabirgðaniðurstöður. Hann sagði jafnframt að þetta væri forgangsmál sem ríkisstjórnin myndi ráðast í. Hann nefndi sem dæmi að skattaeftirlit yrði eflt.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði mikilvægt í þessari umræðu að greint væri á milli þess hvað væru skattsvik og hvað væri skattahagræði og ekki væri gott að „grauta öllu saman í þessari umræðu“. Hann sagiði einnig að mörgum spurningum væri enn ósvarað sem þyrfti að fá á hreint því brýnt væri að „uppræta svarta starfsemi“.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði meðal annars um upplýsingar um þá sem væru með eignir skráðar á aflandseyjunum.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Katrín Jakobsdóttir, óskuðu enn fremur eftir frekari aðgerðum og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í þessu málefni og voru nokkuð harðorðar.
Benedikt viðurkenndi að sín svör væru „þunn því ég hef ekki kynnt mér þetta nægilega vel“. Hann svaraði nokkrum spurningum sem hafði verið varpað fram og tók undir að auka þyrfti gangsæi og bæta samstarf Seðlabanka og skattyfirvald. Hann nefndi sem dæmi að það mætti meðal annars banna að greiða laun með reiðufé.
Hann ítrekaði að hann væri ekki tilbúinn með beinar aðgerðir en þeirra væri að vænta og klykkti út með því í lokin að lengi mætti gott bæta.