Allt að 15.000 í minningarathöfn

Skipuleggjendur minningarathafnar um Birnu Brjánsdóttur segja að lögregla hafi sagt þeim að búast við að allt upp í 10.000-15.000 manns muni taka þátt í viðburðinum á laugardaginn. Þær þekktu Birnu ekki neitt en segja fjölskyldu hennar og vini mjög þakkláta fyrir framtakið.

Þær Ninna Karla Katrínardóttir, Guðrún Eva Brandsdóttir og Bryndís Ósk Oddgeirsdóttir segjast hafa tekið hvarf Birnu mjög nærri sér og því hafi þær langað til að sýna samstöðu með Birnu og fjölskyldu hennar með framtakinu. Tengingin við aðstæðurnar sem Birna hafi horfið við hafi verið sterk. Ninna Karla segist til að mynda lítið hafa sofið í síðustu viku og að hún hafi fylgst með öllum fréttum sem birtust af málinu. „Þetta er ég, þetta eru vinkonur mínar, þetta er systir mín og dætur mínar eftir nokkur ár,“ sagði Ninna Karla í samtali við mbl.is í dag.

Rætt er við þær Ninnu Körlu, Guðrúnu Evu og Bryndísi Ósk í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

Minningarathöfnin hefst á Laugavegi 116 klukkan 16:00 en gengið verður niður Laugaveginn og lögð verða kerti við Laugaveg 31 þar sem Birna sást síðast. Þá verður haldið niður á Arnarhól þar sem kveikt verður á kertum og mínútuþögn fer fram.

Þær stöllur hafa ráðfært sig við borgaryfirvöld og lögreglu vegna minningarathafnarinnar þar sem hún stefnir í að verða mun fjölmennari en þær lögðu upp með. Björgunarsveitirnar munu einnig aðstoða við framkvæmdina.

Facebook-síða minningarathafnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert