Matvælastofnun hefur svipt bónda á Norðurlandi nautgripum sínum vegna óviðunandi aðbúnaðar og umhirðu.
Lagt var hald á 215 nautgripi, 45 voru fluttir í sláturhús, en 170 verða í vörslu Matvælastofnunar á bænum að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Veittur hefur verið skammur frestur til að uppfylla kröfur stofnunarinnar um úrbætur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.
„Matvælastofnun hefur haft afskipti af býlinu undanfarin misseri vegna ófullnægjandi aðbúnaðar og umhirðu nautgripa. Gripunum hefur ekki verið tryggður fullnægjandi aðgangur að drykkjarhæfu vatni og fóðri spillt með ágangi gripa og óhreinindum í fóðurgangi. Þrengsli í smákálfastíum hafa verið of mikil og laus naut haldin innan um bundnar kýr,“ segir í tilkynningunni.
„Eigin eftirliti hefur verið ábótavant, m.a. hefur slösuðum gripum ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti eða leitað lækninga og hefur þurft að aflífa gripi af þeim sökum. Einnig hefur lögbundnum skráningum verið ábótavant.“
Í tilkynningunni kemur fram að um endurtekin brot sé að ræða án þess að kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafi verið virtar. Lög um velferð dýra veiti Matvælastofnun heimild til að framkvæma vörslusviptingu á dýrum þegar eigendur þeirra fylgi ekki reglum um velferð dýra og virði ekki tilgreinda fresti sem þeim eru gefnir til úrbóta.
„Á haustmánuðum voru lagðar dagsektir á ábúendur til að knýja fram úrbætur á frávikum vegna dýravelferðarmála á bænum. Fullnægjandi úrbætur hafa hins vegar ekki verið gerðar,“ segir í tilkynningunni.