Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun leggja fram frumvarp um stofnun svokallaðs aðlægs beltis við landhelgi Íslands. Felur frumvarpið í sér að valdheimildir Íslands verða auknar á 24 sjómílna belti umhverfis Ísland.
Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur að með því að taka upp umrætt belti, í 12 mílur til viðbótar við 12 mílna landhelgina, aukist lögsaga Íslands yfir tilteknum málaflokkum á hafinu, það er varðandi tolla-, fjár-, innflytjenda- og heilbrigðismál.
Valdheimildir Landhelgisgæslunnar muni þá rýmka til eftirlits með þessum málaflokkum.
Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, og gert er ráð fyrir að það verði lagt fram í marsmánuði.
Leggur Guðlaugur áherslu á að í beltinu felist einvörðungu aukin réttindi, en ekki skyldur.
„Það hlýtur að vera skýlaus krafa að íslenska ríkið fullnýti þau réttindi sem það hefur að alþjóðalögum, einkum að því er varðar málefni hafsins.“