„Löngu kominn tími á hana“

Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull en eldstöðin Katla er undir Mýrdalsjökli.
Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull en eldstöðin Katla er undir Mýrdalsjökli. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég fann vel fyrir skjálftanum þegar ég sat inni í bæ. Hann varði í um fimm til sex sekúndur og mér fannst hann koma úr vestri til austurs,“ segir Jónas Erlendsson bóndi í Fagradal sem er bær rétt austan við Vík í Mýrdal. Jarðskjálfti upp á 4,3 stig varð í Kötlu klukkan rúmlega þrjú í dag. Þetta er stærri skjálfti en þeir sem mælst hafa í Kötlu und­an­farið.

Frétt mbl.is: 4,3 stiga jarðskjálfti í Kötlu

Margir fundu fyrir skjálftanum í nágrenninu og alveg undir Eyjafjöllum, að sögn Jónasar. Það fyrsta sem hann gerði var að fara á vef Veðurstofunnar en þar var engar upplýsingar að finna. Hann tók því upp tólið og hringdi á Veðurstofuna þar fengust þau svör að verið væri að vinna úr gögnunum. Jónas greindi þeim fá sínum grun um að hann teldi skjálftann vera um fjögur stig. Það kom heim og saman við mælinguna.

Best að fá Kötlu í heimsókn núna

„Það er löngu kominn tími á hana [Kötlu] og maður er ekki að fara taugum yfir því. Skjálftarnir koma manni því ekki mikið á óvart. Það væri best að fá hana í heimsókn núna á þessum árstíma. Það eru færri ferðamenn hér núna og allur fénaður er inni á húsi,” segir Jónas. Hann nefnir sem dæmi að ef mikið öskufall yrði í gosinu hefðu bændur tíma til að hreinsa öskuna af túnunum fyrir sumarið. Önnur staða væri upp á teningnum ef gosið yrði um mitt sumar þegar búfénaður væri úti og bændur ættu eftir að heyja. Auk þess má búast við að enn fleiri ferðamenn séu á svæðinu yfir sumartímann.   

Hann segir svæðið vera vel vaktað. Samkvæmt rýmingaráætlun fyrir svæðið hefur fólk tíma til að koma sér í burtu. Í því felst mikið öryggi, segir Jónas. Allir á svæðinu fá viðvörun senda með skilaboðum í farsímann sinn þar sem greint yrði frá fyrirhugaðri rýmingu. Það á jafnt við um íslensk farsímanúmer sem erlend. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert