Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.
Í greinargerð kemur fram að frumvörp með svipuðu efni hafi nokkrum sinnum áður verið lögð fram. Fyrst á 116. þingi og af þingmönnum Pírata síðast á 145. þingi. Frumvarpið er nú lagt fram efnislega óbreytt frá síðustu tveimur þingum.
Um meginefni frumvarpsins segir að markmið þess sé að festa upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi betur í sessi en áður.
„Ráðherraábyrgð skiptist í tvennt, þ.e. annars vegar er svokölluð lagaleg ábyrgð, en í henni felst refsi- og bótaábyrgð ráðherra vegna embættisverka þeirra, og hins vegar er hin svokallaða pólitíska eða þinglega ábyrgð sem byggist á þingræðisreglunni. Í henni felst að Alþingi getur fundið að embættisfærslu ráðherra eða samþykkt á hann vantraust sem leiðir þá til þess að hann verður að víkja,“ segir í greinargerðinni.
Þar kemur einnig fram að verði frumvarpið að lögum „verður refsivert fyrir ráðherra að gefa Alþingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi.“