Þorrablót í sveitum létta lund

Sigríður Hörn. Hún söng á þorrablótinu af miklum krafti um …
Sigríður Hörn. Hún söng á þorrablótinu af miklum krafti um bændur á Tjörnesi.

Þorrinn er genginn í garð og þorrablótin byrjuð. Þetta er tímabil matar, leiklistar og söngs. Dansinn dunar í félagsheimilum sveitanna langt fram eftir nóttum þessi misserin og þá er gleðin heldur betur við völd.

Í Suður-Þingeyjarsýslu eru blótin mörg. Þau eru það mörg að þau komast varla fyrir á dagatalinu og þess vegna taka Húsavíkingar forskot á sæluna og blóta viku fyrir bóndadag í íþróttahúsi bæjarins. Þar á eftir hefjast svo blótin í sveitunum og bóndadagshelgina blótuðu Bárðdælir í Kiðagili, Mývetningar í Skjólbrekku og Tjörnesingar í Sólvangi. Þar á eftir koma svo Aðaldælingar í félagsheimilinu Ýdölum, Reykdælingar í samkomuhúsinu á Breiðumýri, Fnjóskdælir í Stórutjarnaskóla og Kinnungar í Ljósvetningabúð. Reykhverfingar koma svo þar á eftir í félagsheimilinu Heiðarbæ og hafa stundum verið einna síðastir með sitt blót. Grunnskólarnir hafa líka sín blót og skólinn á Hafralæk í Aðaldal var um tíma með sitt blót í byrjun góu vegna plássleysis á dagatalinu og þar hefur margt ungt sveitafólk stigið sín fyrstu spor á leiksviðinu.

Það er nokkuð misjafnt eftir sveitum hve mikið fólk leggur í skemmtiatriðin, en alls staðar er lagt upp úr því að hafa góða dagskrá undir borðum til þess að gleðja gesti. Það er mikil vinna að undirbúa leikþætti og söngatriði, en íbúar sveitanna eru margir vanir að stíga á svið og láta þá ýmislegt flakka. Þema þessara leikatriða er mjög oft góðlátlegt grín um náungann og lýsir sér í því að ferðast er um sveitina og litið heim á bæi. Oft sjá þá augu fleira en auga og orðrómur sem er á kreiki fær á sig ljóslifandi mynd þegar samkomugestir eru færðir inn í fjós og fjárhús eða að eldhúsborði virðulegra bænda í sveitinni. Oft eiga ógiftir bændur undir högg að sækja og eru á því lýsingar með hvaða hætti þeir reyna að lokka til sín konur til þess að taka þátt í búskapnum og halda heimili. Atburðir síðasta árs eru líka oft rifjaðir upp og annáll sveitarinnar er stundum fluttur í bundnu máli. Í flestum sveitum eru textahöfundar og sumir þeirra hafa það hlutverk að koma saman góðum vísum og bálkum þó þeir séu ekki alltaf í nefndinni.

Mikið verk að undirbúa

Það er mikið verk að vera í þorrablótsnefnd og í öllum sveitum er það þannig að allir þurfa að starfa í nefnd með vissu millibili. Oft eru það 6-8 einstaklingar sem hafa veg og vanda af samkomuhaldinu. Stundum eru það þrenn hjón, en þorrablótsnefndir eru ekki alls staðar bundnar við hjónafólk enda tekur ungt fólk og ógift virkan þátt í starfinu ef það er í heimahögum þann veturinn. Almennt þurfa nefndirnar að koma saman í lok október eða í nóvember til þess að ákveða hljómsveit því góðar danshljómsveitir þarf að panta langt fram í tímann. Síðan hefst skipulagsvinna og eftir áramót líta menn til baka og fara ofan í viðburði ársins til þess að geta fest eitthvað á blað sem gæti orðið leikþáttur eða gott söngatriði. Nefndin kemur svo saman og allir fá þá hlutverk, sumir að búa til endanlegan texta og aðrir að útvega hitt og þetta sem hafa þarf með. Það á t.d. við um tæknivinnu sem tengist nútímablótum en algengt er á sumum þorrablótum að sýna viðburði og leik á breiðtjaldi fyrir gesti. Aðalheiður Þorgrímsdóttir, sem býr í Reykjahverfi og er formaður þorrablótsnefndar þar, segir að líklega muni hennar nefnd koma saman allt að fimmtán sinnum til þess að allt gangi upp, en þorrablót í Heiðarbæ í Reykjahverfi er áætlað 11. febrúar og mikil vinna þegar hafin.

Dillandi hlátur, dans, söngur

Fyrstu helgina í þorra blótuðu Tjörnesingar í félagsheimilinu Sólvangi en þar hafa verið haldin blót í áratugi. Salurinn er nokkuð þröngur miðað við fjölda gesta, en þröngt mega sáttir sitja. Þó að sveitin sé fremur fámenn þá koma burtfluttir Tjörnesingar á sitt heimablót til þess að gleðjast auk þess sem allir mega hafa með sér gesti, vini og vandamenn. Nokkuð margir Tjörnesingar búa á Húsavík og tekur það fólk virkan þátt í þorrablótinu. Það er í nefndinni með vissu millibili eins og þeir sem hafa fasta búsetu í sveitinni. Ungmennafélagið og kvenfélagið eru með í þessu, en nokkrar konur á Húsavík sem aldar eru upp á Tjörnesi láta ekki sitt eftir liggja að hafa blótið sem best. Samkoman núna hófst með því að þorrablótsnefndin söng inn blótið og bauð fólk velkomið. Síðan var borðað um stund en þar á eftir voru leiktjöldin dregin frá og sungið um bændur. Tjörnesingar eru svo heppnir að eiga góðar söngkonur, en Sigríður Hörn Lárusdóttir var í aðalhlutverki í þetta sinn. Hún er öflugur textahöfundur og mikil söngkona og lifir sig inn í hlutverkið, en varla er það þorrablót á Tjörnesi að hún stigi ekki á svið og lýsi einhverju því sem gerst hefur á síðasta ári. Þá var einnig farið í fjárhús hjá einum bóndanum og sungið var um uppgjafabónda. Þeir „Bogi og Örvar“ fengu sér sæti á sviðinu og ræddu menn og málefni sem tengdust Tjörnesi. Þeir voru með tvo nokkuð langa þætti og gerðu mikla lukku. Inn á milli atriða var fjöldasöngur og sá hljómsveit Friðjóns Jóhannssonar um að spila undir. Í lok borðhalds var svo skipuð ný nefnd og salurinn var ruddur og dillandi dans dunaði fram eftir nóttu.

Stundum stutt í morgunverk

Margar sögur fara af þorrablótum fyrr á árum og stundum var tíðin þannig að tæplega var hægt að koma á fundum og blótum vegna ófærðar og óvissu um það að fólk kæmist heim. Stórhríðar geta hæglega hamlað samkomuhaldi í Þingeyjarsýslum. Fram að þessu hefur tíðin leikið við íbúa héraðsins og gestir sem fóru á blótin bóndadagshelgina keyrðu sums staðar á sumarauðum vegi í frekar hlýrri golu miðað við árstíma. Fyrr á árum brast stundum á á meðan fólk var á ballinu og var þá gripið til þess ráðs að dansa fram undir morgun og sjá hvort ekki glórði eða slotaði. Þegar fólk náði heim var ef til vill orðið stutt í morgunverkin og því viturlegt að fara beint í að mjólka kýrnar. Svo virðist sem þorrablótin séu lífseig og þau létta lund þeirra sem þau stunda. Þegar þeim lýkur er sól orðin nokkuð hátt á lofti og skammdegisdrungi hjá fólki með öllu horfinn.

Blót urðu algeng 1950-1960

Nokkuð er misjafnt hvenær byrjað var að halda þorrablót í sveitum landsins. Elsta dæmið sem fundist hefur um þorrablót í sveit er úr Vallahreppi í Suður-Múlasýslu. Á Austurlandi var byrjað að halda þorrablót tiltölulega snemma. Í Borgarfirði eystra var haldið blót um eða upp úr aldamótum. Í Fellum árið l915 og í Skriðdal og Hjaltastaðaþinghá 1920-1930. Árið 1904 var haldið blót á Ytri-Varðgjá í Kaupangssveit í Eyjafirði og margmennt var á þorrablóti í Hólaskóla árið 1905. Í Suðursveit blótaði fólk þorra árið 1915 og í Gnúpverjahreppi 1930. Það er ekki fyrr en á bilinu 1950-1960 sem þorrablót fara að verða mjög algeng. Upphaf þeirra hélst nokkuð í hendur við byggingu samkomuhúsa í sveitum, en stundum var blótað í rúmgóðum húsakynnum á einstökum bóndabæjum.

Bjarni Aðalgeirsson og Smári Kárason sem Bogi og Örvar að …
Bjarni Aðalgeirsson og Smári Kárason sem Bogi og Örvar að fylgjast með lífinu í sveitinni.
Sauðfjárbóndinn Guðmundur Árni í hlutverki sínu.
Sauðfjárbóndinn Guðmundur Árni í hlutverki sínu.
Hljómsveit Friðjóns sá um tónlist á Tjörnesi í félagsheimilinu Sólvangi.
Hljómsveit Friðjóns sá um tónlist á Tjörnesi í félagsheimilinu Sólvangi. mbl.is/Atli Vigfússon
Blót urðu algeng 1950-1960
Blót urðu algeng 1950-1960 mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka