Bannað er að nota farsíma til samtala í þingsal og á nefndarfundum og mega símar ekki vera stilltir á „titring“ heldur verða þeir að vera stilltir þannig að ekki heyrist í þeim hringja.
Þá má heldur ekki taka myndir inni í þingsal, hvorki á fundum né utan funda, að því er Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Mikil notkun þingmanna á farsímum meðan á þingfundum stendur hefur vakið athygli. Helgi segir að farsímar hafi breyst mikið í seinni tíð og þingmenn noti þá til margvíslegra samskipta, t.d. lesi og sendi póst og sms-skeyti og við því sé ekkert amast.
„Það er regla að farsíma má ekki nota í þingsala til samtala og það sama gildir á nefndarfundum,“ segir Helgi.
„Farsímar eru líka myndavélar. Reglan hefur verið sú að ekki megi mynda inni í þingsalnum, hvorki á fundum né utan fundar. Almennt er ekki leyft að gera þingsalinn að „stúdíói“ eins og borið hefur á, enda liggi ýmis gögn þar frammi.“
Það sjónarmið hafi líka komið fram í forsætisnefnd að myndatökur inni í þingsalnum geti þrengt að persónufrelsi manna. „En að þessu leyti hafa reglurnar verið þverbrotnar og ekki hægt að hemja myndagleði manna,“ segir Helgi.