„Harðneitar að koma til byggða“

Vatnajökull.
Vatnajökull. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ævintýramaðurinn Alex Bell­ini sem rann um 380 metra niður Grímsfjall fyrr í dag ætlar að halda áfram göngu sinni yfir Vatna­jök­ul á skíðum. Hann er nokkuð lemstraður og hruflaður eftir fallið en ekki alvarlega slasaður. Hann féllst á að dvelja í 36 klukkustundir í skála Jöklarannsóknarfélagsins á svæðinu áður enn hann heldur förinni áfram. 

Félagi hans sem rann styttri spöl niður Grímsfjall fór með björgunarsveitum til byggða. Lagt var af stað rétt fyrir klukkan sex í dag og er áætlað að þeir komi til byggða milli átta og tíu í kvöld. Hann er ekki slasaður, að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Slysavarnarfélagi Landsbjargar um félagann. Jónas bjóst ekki við að hann þyrfti að fara undir læknishendur heldur myndi einungis þiggja aðstoð til byggða.    

Frétt mbl.is: Gekk fram af og féll 150 metra

„Hann harðneitar að koma til byggða. Við hefðum kosið að fá hann í læknisskoðun til að ganga úr skugga um að ekkert hefði gerst eftir fallið,” segir Jónas um Bellini.  Í björgunarleiðangri björgunarsveitanna reyndu sjúkraflutningamenn og lögregla að fá hann til að fallast á að koma í frekari læknisskoðun. 

„Við höfum svo sem ekkert um það að segja,“ segir Jónas inntur eftir því hvort ekki sé slæmt að Bellini hafi neitað að fylgja björgunarsveitinni til byggða. Jónas bætti við: „Það eru engin úrræði fyrir lögreglu til að gera eitthvað í þeim málum.” Jónas bendir á að Bellini sé frjáls ferða sinna og treysta verði á að hann stefni sjálfum sér ekki hættu.  

Kort/Map.is

„Þeir hafa gert allt rétt“

Félagarnir voru með neyðarsendi og skildu eftir ferðaáætlun. Þeir skildu einnig eftir góðar upplýsingar, þar á meðal símanúmer sín og númer hjá aðstandendum. „Þeir hafa gert allt rétt og við höfum verið í góðum samskiptum við þá,“ segir Jónas. Bellini setti sig í samband við björgunarsveitirnar áður en hann hélt í förina og í gegnum safetravel.com

Mennirnir tveir voru með talsverðan búnað þegar þeir lentu í slysinu. Líklega hefur hann fundist allur aftur eða að hluta. Jónas telur að Bellini hafi fengið þann búnað sem upp á vantaði hjá félaga sínum til að halda ferðinni áfram. 

Ætlar að dvelja í hylki á rekís

Ferð Alex yfir Vatna­jök­ul er hluti af und­ir­bún­ingi hans fyr­ir mun stærra verk­efni. Hann hyggst dvelja í björg­un­ar­hylki sem verður komið fyr­ir í rekís úr jökl­um Græn­lands, eins og hann sagði frá í mynd­skeiði á mbl.is ný­verið.

Frétt mbl.is:Ævin­týra­menn í vanda á Vatna­jökli

Hér er vefsíða Bellini og hér er Facebook-síða hans 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert