Viðskiptaráð (VÍ) telur rétt að ríkissjóður losi um eignarhald sitt á þeim 22 kirkjum sem eru í eigu þess. Tillögurnar eru hluti af úttekt sem ráðið hefur gert og lúta að möguleikum til hagræðingar í rekstri ríkisins.
Þar er gerð tillaga um að ríkissjóður selji um 200 þúsund fermetra af því húsnæði sem það á, en í heildina nemur fermetrafjöldi fasteigna þess um 880 þúsundum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Kirkjurnar sem um ræðir eru af ýmsum toga og reistar á ólíkum tímum. Flestar þeirra eru á norðanverðu landinu og Vestfjörðum. Elst þeirra er Grafarkirkja á Höfðaströnd en hún er að stofni til frá árinu 1680. Næstelsta kirkjan er hin sögufræga Hóladómkirkja sem reist var á árunum 1757 til 1763 og er meðal allra elstu steinhúsa landsins. Flestar eru þó kirkjurnar frá öndverðri 19. öld.
Yngsta byggingin er Reykhólakirkja sem reist var 1963 og Staðarhraunskirkja í Hraunhreppi frá 1959. Aðrar sögufrægar kirkjur sem um ræðir eru meðal annars Þingvallakirkja, Haukadalskirkja og kirkjan á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Í tillögum Viðskiptaráðs er samanlagður fermetrafjöldi bygginganna 22 áætlaður tæpir 2.000 fermetrar. Í útreikningunum virðist gengið út frá því að kapellan á Hrafnseyri sé tæpir 700 fermetrar að stærð en inni í þeirri tölu er einnig safn sem reist var á staðnum en kapellan sjálf er um 196 fermetrar að stærð.
Spurður út í tillöguna segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur VÍ, að hugmyndin sé ekki sú að selja kirkjurnar almennri sölu heldur að þær verði færðar í eigu þjóðkirkjunnar samkvæmt samkomulagi þar um. Auk þess sé ekki gert ráð fyrir tekjum af afhendingunni. „Það má til dæmis hugsa sér að tilfærslan ætti sér stað fyrir litla eða enga greiðslu gegn því að þjóðkirkjan sjái áfram um rekstur og viðhald þeirra. Hugsunin er sú að þjóðkirkjan reki sínar kirkjur sjálf, líkt og raunin er á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björn Brynjúlfur.