Nagladekkjum undir bifreiðum í Reykjavík hefur fjölgað undanfarið. Eigendur tæplega 27% þeirra bíla sem eru á nagladekkjum sögðu ferðalög út á land og yfir fjallvegi að vetri til vera helstu ástæðu þess að nagladekk urðu fyrir valinu.
Hlutfall ökutækja í Reykjavík á negldum dekkjum var 46,6% þegar talið var í fjórðu viku ársins 2017. Þetta kemur fram í tveimur könnunum sem Reykjavíkurborg hefur látið gera, að því er segir í tilkynningu frá borginni.
Reykjavíkurborg mælir ekki með negldum dekkjum í borginni. Helstu ástæðurnar eru meðal annars að uppspænt malbik er þáttur í svifryksmengun, nagladekk valda hljóðmengun og þau krefjast meira viðhalds gatna. Einnig er bent á að „vetrarþjónusta gatna í borginni [er] prýðileg.“
Í bókun umhverfis- og skipulagsráð frá 25. janúar segir: „Umhverfis og skipulagssviði er falið að koma með tillögur hvernig megi snúa þessari þróun við með aukinni fræðslu og hugsanlegu sérstöku gjaldi sem lagt yrði á notkun nagladekkja í takt við mengunarbótaregluna.“
Samkvæmt núgildandi umferðarlögum er sveitarfélögum ekki heimilt að hefja gjaldtöku vegna notkunar negldra hjólbarða.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, áheyrnarfulltrúi Pírata og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í umhverfis- og skipulagsráði lögðu fram bókun vegna málsins og telja ástæðu til að sporna gegn vaxandi nagladekkjanotkun í borginni.
Í henni kemur meðal annars fram að „beinn kostnaður sem hlýst af þessu sliti gatnanna talinn nema milli 150 til 300 milljónum króna.“ Í bókuninni er einnig bent á að kostnaðurinn leggist á alla borgarbúa einnig þá sem nota ekki nagladekk. Stóraukna nagladekkjanotkun megi einnig rekja til nýrra bílaleigubíla sem ferðmenn leigja.
„Umhverfis- og skipulagssvið mun nú kanna hvernig best er að vinna að því að fleiri velji dekk góð naglalaus vetrardekk. Áherslan verður á að bifreiðar sem einungis er verið að nota á höfuðborgarsvæðinu verði á naglalausum dekkjum," segir jafnframt í tilkynningu Reykjavíkurborgar.