Það væri „skammsýni“ að semja um rekstur á bæklunaraðgerðum við Klíníkina í Ármúla og „óþarfur kostnaðarauki fyrir skattgreiðendur.“ Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í föstudagspistli sínum. Hann bendir á að mikilvægt sé að halda því til haga að ekki hafi verið samið um málið.
Frétt mbl.is: Deilt um einkarekin sjúkrahús
Bæklunaraðgerðir eru framkvæmdar á Landspítala og fleiri sjúkrahúsum. Þær eru meðal annars gerðar í samvinnu við sjúkrahúsin á Akureyri og á Akranesi. Hann bendir á að á einu ári af biðlistaverkefni hefur meðalbiðtími eftir liðskiptaaðgerð í mjöðm og hné styst um helming, úr 16 í 8 mánuði.
„Yrði af þessum tilteknu áformum þá myndi það ekki einfalda eða létta undir með rekstri Landspítala, eins og fram er haldið, heldur trufla hann. Einkasjúkrahús sem sinnir einföldum liðskiptaaðgerðum myndi grafa undan fámennri sérgrein sem sinnir sérhæfðum hópi sjúklinga á Landspítala,“ segir Páll jafnframt í pistli sínum.
Hann bendir á að ef af þessu yrði myndu sjúklingar „fljótt líða fyrir það að bæklunarsérgreinin væri orðin miklu veikari á spítalanum. Sérhæft fagfólk er takmörkuð auðlind í fámenninu hér á landi og það er þegar áskorun að tryggja á viðunandi hátt mönnun og tækni á Landspítala.“