Ólafur Elíasson listamaður var einn boðsgesta í veislu Danadrottningar til heiðurs forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem haldin var í höllu drottningar í vikunni.
Þangað mætti hann í sínu fínasta pússi með hvorki fleiri né færri en fjórar orður í barmi. Geri aðrir betur!
Ritstjórn Sunnudagsblaðsins kannaði hvaða orður þetta eru sem Ólafur ber.
Lengst til vinstri er hin íslenska fálkaorða sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti nafna sínum Elíassyni árið 2008.
Önnur frá vinstri er Dannebrogsorðan danska. Það var árið 2010 sem Margrét Þórhildur Danadrottning sló Ólaf til riddara af Dannebrog ásamt Viggo Mortensen og fleirum.
Þriðja orðan er sænsk menningarorða og kennd við Eugen prins, sem var bróðir Gústafs fimmta Svíakonungs, en hann var þekktur málari og listsafnari. Eugen-orðuna hlaut Ólafur árið 2005 en meðal annarra Íslendinga sem hafa fengið sömu viðurkenningu má nefna Erró, Jóhannes Kjarval og Rúrí.
Lengst til hægri í barmi Ólafs er svo franskur riddarakross; Ordre des Arts et des Lettres, sem franski sendiherrann í Danmörku veitti honum í febrúar 2016. Orðan mun vera ein sú virtasta í frönsku menningarlífi og ekki minni menn en Bono hafa verið sæmdir henni.
Þá má nefna að auk fyrrnefndra viðurkenninga fyrir list sína þá hefur Ólafur einnig hlotið Der Kaiserring eða keisarahring þýsku borgarinnar Goslar. Hann tók við hringnum við hátíðlega athöfn árið 2013 en ekki er vitað hvort hann bar hringinn í veislu Danadrottningar.